Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Gullkistan
Gullkistan
Það er sagt að haugur einn stendur vestur í Vatnsfjarðarsókn við Ísafjörð. Í haugi þessum á að vera gullkista og hafa menn oft ætlað að ná henni, en jafna frá horfið því þá hafa þeir séð ýms undur. Þegar þetta hafði lengi gengið fóru tveir menn, ungir og atorkusamir, að brjóta hauginn. Grófu þeir til þess er þeir sáu kistuna. Var hún þá svo þung að þeir gátu ei hafið hana upp og voru þeir þó hraustmenni að burðum. Grófu þeir þá niður með kistunni og umhverfis hana alla og undir hana. Kistan var járnbent mjög sterklega og hringir í göflunum. Fór nú annar þeirra undir kistuna og lyfti undir hana, en annar dró hana upp á reipi sem hann dró í annan gaflhringinn. En þegar kistan var komin á loft slitnaði hringurinn úr gaflinum og féll kistan niður. Varð hinn maðurinn undir henni og dó þegar. Þá varð sá hræddur sem uppi var og hætti við, en hafði hringinn með sér. Var það koparhringur gildur. Þenna hring gaf hann kirkjunni í Vatnsfirði og er hann þar í kirkjuhurðinni. Aðrir segja að nokkrir menn hafi tekið sig saman til að grafa upp hauginn. Þeir fundu kistuna járnbenta og voru hringir í göflunum. Drógu þeir þá reipi í hringana og toguðu í, en einn var niðri og lyfti undir kistuna. Þegar kistan var nærri því komin upp á gryfjubarminn voru þeir farnir að þreytast sem uppi voru og þótti hálfgert tvísýni á hvort kistan kæmist upp og segir þá einn þeirra: „Hún fer upp ef guð lofar.“ Þá gellur sá við sem niðri var og undir kistuna lyfti og segir: „Hún skal upp hvort sem guð leyfir eða ekki (hvort sem guð vill eða ekki).“ Þá slitnaði annar gaflhringurinn úr kistunni svo hún datt á manninn sem undir var og drap hann, en gryfjan hrundi saman. Hurfu þá hinir frá óttaslegnir og gáfu Vatnsfjarðarkirkju hringinn, en hættu við gröftinn.