Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Hítardals-Skotta

Svo er sagt þá er Vigfús Jónsson er síðar varð prestur í Hítardal[1] (á að gizka fyrir 100 árum) var í skóla átti hann mjög vingott við einn af skólabræðrum sínum. Vinfengi þeirra hélzt eftir það skólatíð þeirra var úti. Þeir urðu síðar prestar, Vigfús í Hítardal, en hinn einhvers staðar eystra.

Nú líður og bíður unz svo ber við að presturinn vinur séra Vigfúsar verður sekur um eitthvert afbrot svo að hann er dæmdur frá kjól og kalli á alþingi. Í þeim dómi sat séra Vigfús og að dóminum afloknum átti að færa hinn dæmda klerk úr hempunni eins og siður var til. Þá er mælt að séra Vigfús, ör að lund og ef til vill af víni, hafi orðið fyrstur til að taka í ermi klerks. Klerki varð þá þungt í skapi við vin sinn og mælti: „Þú varðst þá, vinur, fyrstur til að færa mig af hempunni; vera má að þér þyki jafnmikið sem mér nú áður langt um líður.“ Nú ríða menn af þingi, en svo þykir bregða við að séra Vigfúsi verður ekki haldsamt á börnum sínum og deyja þau efnileg ung og verður fljótt um þau, enda þykjast menn verða varir við kvenlíki nokkurt með skaut á höfði og horfði aftur krókurinn. Því var hún Skotta nefnd er [hún] tók að gjöra mönnum og skepnum mein. Þetta aflar séra Vigfúsi og konu hans mikillar sorgar, en fá ei við gjört.

Á heimili séra Vigfúsar var ölmusumaður, Eiríkur að nafni og hniginn á efra aldur. Hann tekur sótt þá er hann hyggur að muni leiða sig til bana. Hann biður þá húsfreyju að sé svo, að hún sé ekki kona einsömul og ali sveinbarn að láta það bera nafn sitt, og megi vera að það saki ekki þó að eitthvað óhreint vilji að því slæðast. Nú elur prestskonan sveinbarn og var það Eiríkur nefnt. Hann óx upp og átti Skotta aldrei við hann og aldrei varð vart við að Skotta fylgdi honum né nokkrum hans afkomanda, en í Hítardal gekk hún við og við ljósum logum og fylgdi heimafólki.

Eiríkur varð síðar klerkur að Reykholti, faðir séra Vigfúsar Reykdals nú á Hörðubóli í Miðdalaprestakalli. Að séra Vigfúsi Jónssyni liðnum og hans fólki fylgdi Skotta staðnum í tíð séra Halldórs og séra Björns og síðan sonum séra Björns, Ólafi í Ferjukoti, séra Benedikt og þó einkum Hannesi bónda á Hamrendum í Miðdölum. Hannes lá þunga sótt og langa í ókennilegri veiki er dró hann til bana og átti Skotta þá að hafa gjört honum ýmsar glettingar. Þá er Hannes var sálaður var erfi haldið eftir hann og bræðrum hans boðið. Þeir komu að vísu, en fara strax á burt og jarðarförin var úti, mest að hvötum Sigríðar konu Ólafs. Á Hamraendum var þá vinnumaður, Þórhalli að nafni. Hann var út í tröð um það leyti sem erfisdrykkjan eftir Hannes sál. var á enda. Honum fannst allt í einu sem tekið væri í hendina á sér og því fylgdi slík óvera að honum varð mjög óglatt og illt. Upp frá því þykir sem Þórhalli sæki ekki vel að; hann lifir ennþá hvað sem nú Skotta tekur til bragðs þá hans missir við; en mikið þykir hún vera farin að dofna og nálega ekkert á henni að bera.

Í Selárdal bjó maður Benedikt að nafni. Kona hans sem var, Margrét að nafni, lifir ennþá og hefur sagt sögu þessa. Svo stendur á að þegar riðið er sunnan frá Hítardal yfir svonefndan Bjúg þá er farið rétt hjá engjunum í Selárdal. Eitt sumar var Benedikt sem oftar að slá fram á engjum með fólki sínu, en búsmali á beit rétt fyrir framan. Þá segir hann: „Nú kemur bráðum einhver frá Hítardal,“ og hafði hann verið oft vanur að segja það fyrir og ætíð gengizt eftir. Strax eftir segir hann: „Ég vildi að hún, skr… sá arna, dræpi ekki fyrir mér féð,“ og í sömu andránni fleygir hann orfinu, en féð tekur kast og ein ærin fleygist upp í loft. Benedikt hleypur að ánni og kaffærir hana í ánni sem rann þar hjá og stumrar svo lítils háttar yfir henni. En á meðan kemur séra Björn í Hítardal sunnan Hólsdals, hérna megin við Bjúginn fyrir heiman Bustardal, og ríður inn í Dali.

Einu sinni komu þær báðar nöfnurnar, Hítardals-Skotta og Hvítárvalla-Skotta, undireins í brúðkaup nokkurt. Sá einn af boðsmönnunum sem þar var skyggn að þær tóku matinn af diskunum hjá gestunum meðan á veizlunni stóð án þess þeir yrðu varir við. En með því maðurinn átti nokkuð hjá sér særði hann þær báðar út fyrir dyr og lét þær standa þar og á sjá, en ekkert af fá unz samsætinu var lokið, og þar á ofan lét hann þær þeim til spotts og athláturs fyrir gestina hrækja hvora framan í aðra. Í öðru sinni tókust þær nöfnur á fangbrögðum, en ekki er þess getið hvernig þeim leik hafi lokið.

  1. [1736-1775].