Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Höfðabrekku-Jóka

Um miðja seytjándu öld bjuggu bræður tveir á Höfðabrekku – þar voru þeir í Kötluhlaupinu 1660 – eignarjörð forfeðra sinna, er hétu Ísleifur og Vigfús, merkilegir menn. Vigfús var klausturhaldari. Kona hans hét Jórunn Guðmundsdóttir Vigfússonar á Kalastöðum – bróðurdóttur Orms í Eyjum í Kjós. Jórunn var merkiskona að flestum hlutum, skörungur í bústjórn allri, gáfukona og söngmaður orðlagður, en þókti hörð í skapi, gestgjafi hinn bezti og að öllu kvenskörungur hinn mesti.

Það er til dæmis um það hvað vel Jórunn var að sér: Einu sinni kom gömul bók til alþingis sem enginn komst fram úr til muna. Þá var Runólfur Jónsson lögréttumaður[1] á alþingi sem þá var búandi í Mýrdalnum, viðstaddur. Sagðist hann ekki vita mann sem læsi hana ef það gæti ekki Jórunn á Höfðabrekku. En er til hennar kom fór eftir tilgátu hans.

Þau Vigfús og Jórunn áttu nokkur börn saman, Vigfús og Kristínu og Jórunni og að líkindum Jón.

Þar hjá þeim Vigfúsi og Jórunni var vinnumaður sá er Þorsteinn hét. Hann lagði hug á Jórunni Vigfúsdóttir og fóru beggja hugir saman, en þetta var foreldrum hennar, einkum Jórunni, mjög á móti skapi. En þessi mótþrói þeirra var ekki til annars en glæða ást þeirra. Allt um það varð hann að rýma vistina og fór til Magnúsar prófasts Péturssonar sem þá var prestur til Kirkjubæjarklausturs (frá 1640 til 1652, deyði 1687). En er þeim var stíað í sundur áttu þau því fleiri launfundi og fór svo að hún varð þunguð. Við það varð Jórunn svo gnæp að hún hét því að hann skyldi hana aldrei fá. Herti hún þá svo að Þorsteini að hann hét því að hætta fundum við hana.

Þá var haft í seli frá Höfðabrekku norðan undir Selfjalli – það selland fór af í hlaupinu 1721 – og var Jórunn þar selmatselja með öðru kvenfólki. Þangað kom Þorsteinn til barnsmóður sinnar þrátt fyrir loforð sitt, á laugardögum þegar hann kom því við. Þetta var Jórunni flutt og margvíslega orðum aukið af sögumönnum. Við þetta varð hún svo heit og reið að hún hézt og lofaði að verða honum að bana.

Jörðuð var Jórunn. En brátt urðu menn þess varir að Jórunn var á rjátli og sótti hún fyrst að Þorsteini, en svo gat síra Magnús verndað hann að ekki varð honum mein að henni. Samt réði hann honum að fara út í Vestmannaeyjar og vera þar í það minnsta full tuttugu ár, en varlegast væri honum að fara aldrei úr Eyjunum þó þau væru af liðin. Þangað fór Þorsteinn og var þar svo lengi að komið var á hið tuttugasta ár. Var hann þá svo fús að fara til lands að hann skeytti að engu ummælum síra Magnúsar, heldur fór til landsins upp í Sandavarir. En er þeir komu undir sandinn þóttust nokkrir menn sjá Jórunni upp á kampinum í hnipri. Var hún þá að hagræða kögglunum í tánum á sér því svo var hún þá farin að rotna að kögglarnir skröptu lausir. En er þeir voru landfastir sáu menn Jórunni hvar hún flaksaðist að skipinu, þreif Þorstein, kreisti hann og kramdi til dauðs. En í þeim sömu svifum kom þar síra Magnús í fluginu; hafði hann atlað að hjálpa Þorsteini. Þá segir Jórunn: „Hart er riðið.“ Því anzaði síra Magnús: „En of seint er komið. Samt skaltu ekki fleiri ferðir fara en þessa.“ Hóf hann þá upp stefnu í ljóðum og stefndi henni norður á Grænafjall að keri því sem þar er. Brá Jórunn þegar við. En er hún kom að kerinu gekk hún umhverfis niður eftir því með þvílíkum hljóðum að allar kindur stukku í burtu af Grænafjalli nema einn meinahrútur. Segja menn að í það eina sinn hafi Grænafjall verið safnað sauðlaust.

Þetta jarðker kvað vera vaxið grasbrekkum niður eftir, aðdregið, en kolsvart er niður eftir kemur og vatn neðan til.

Eftir það Þorsteinn var kominn út í Eyjar var Jórunn á sífelldu sveimi og mátti svo að kveða hún væri eins og gömlu tröllin hvar sem hennar var getið. Fáum gjörði hún mein og var hún í því efni einkennileg afturganga nema hvað stöku menn ístöðulitlir fengu öngvit er hana sáu. Oft gekk hún um sýslur á Höfðabrekku, einkum búr og eldhúsgögn. Skammtaði hún oft, en blandaði mold í matinn svo hann varð óætilegur. Einu sinni kom vinnumaður Vigfúsar að henni þar sem hún var að hræra mold saman við skyrið. Segir hann þá: „Hvað ertu nú að gera Jóka?“ greip upp einn askinn og kastaði eftir henni.

Í Fjósum í Mýrdalnum vöktu tvær konur á eftir og höfðu það til skemmtunar að segja sögur og tala um hitt og þetta. Þá segir önnur: „Hvað ætla okkur yrði við ef Höfðabrekku-Jóka væri komin?“ Í þeim sömu svifum kemur Jóka inn í fjósið og segir: „Hvað ætla ykkur yrði við?“ Þá greip hin sem þagði kollu sína og skvetti á Jórunnu, en hún þaut undan og út, en hin leið í öngvit.

Einu sinni mætti Magnús prófastur á Hörgslandi henni á förnum vegi og segir: „Jórunn! önnur var þá ævin er þú sazt fremst í innsta stól í Höfðabrekkukirkju með skautið og Grallarann, en vera nú orðin afturganga!“ Þá segir Jóka: „Og minnst' ekki á það Mangi; of seint er að iðrast eftir dauðann!“ Og er það síðan að orðtæki haft.

Jórunn var jafnt á ferð daga sem nætur og eru þeir draugar nefndir „dagdraugar“.

Oft slóst hún í ferð með mönnum og er það til dæmis sagt að þeir voru einu sinni allir á ferð út á Eyrarbakka, síra Magnús, Einar sýslumaður Þorsteinsson og síra Þorsteinn Jónsson í Holti, og riðu með keppni. Þá segir síra Magnús: „Margur ríður nú vel, en þó ríður Jóka bezt á flókatrippi sínu.“ Sumir segja hún hafi riðið trippi, en aðrir að hún hafi riðið á fjöl úr kistunni sinni á gandreið. Það er eitt til marks um kunnáttu Jórunnar er hún reið á fjölinni.

  1. Runólfur Jónsson sonarsonur hans átti Helgu Magnúsdóttir lögr.m. Ísleifssonar á Höfðabrekku [Hdr.].