Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Húsavíkur-Lalli

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Húsavíkur-Lalli

Samtíða Mývatns-Skottu var karldraugur sá uppi í Þingeyjarsýslu sem Lalli hét. Sá prestur var í Húsavík frá 1716-1778 sem Ketill hét og var honum sendur draugur að vestan. Svo er sagt að hann hafi verið fluttur sjóveg af Flateyjardal yfir Skjálfandaflóa og til Húsavíkur. En þegar skipið tók niður í flæðarmáli sagði formaðurinn: „Fari nú sá fyrstur út sem seinastur fór upp í.“ Síðan stjakaði formaðurinn skipinu út aftur og reri heimleiðis. Draugurinn hafði setið í framstafninum og farið þegar honum var sagt. Eftir það fór hann að hitta prestinn, en misheppnaðist að fyrirkoma honum; þó hafðist draugurinn við í Húsavík og því var hann kallaður Húsavíkur-Lalli. Hann gekk þar um sem grár köttur, gerði ýmislegt illt af sér, drap fénað og gerði svo mikið um sig að mesta mein þótti að honum, helzt heima á bænum í Húsavík. Þorvaldur hét maður sem þar var í sveitinni; hann var sonur séra Magnúsar Illugasonar sem var prestur í Húsavík 1667-1715. Þorvaldur var bæði skáld og kunnáttumaður og þótti laginn til að koma af reimleikum. Var hann því fenginn til að vera um tíma í Húsavík. Hann svarf svo að Lalla þó ekki gæti hann fyrirkomið honum með öllu að hann varð ekki að stórum meinum eftir það. Eitt kvöld var það meðan Þorvaldur var í Húsavík að enginn þorði fram að kveikja; svo þótti heimilismönnum draugsi þá umfangsmikill frammi í bænum. Þorvaldur gaf sig lítið að því og fór fram að kveikja. Var þá sagt með dimmri rödd á baki hans: „Ég er einn á ferli.“ „Það lýgur þú, bölvaður,“ sagði Þorvaldur, „ég er á ferli líka.“ Sneyptist Lalli við það, en Þorvaldur kveikti ljósið og fór með það inn; en það er eftir honum haft að þá hafi verið í meira lagi fas á Lalla. Meðan Lalli lék laus við og honum kom enginn hnekkir gekk hann um híbýli eins og annar maður svo að sáu hann bæði skyggnir og óskyggnir. Það var t. d. einn dag þegar Björn eða ef til vill Nikulás Bukk, því hann var seinna en Björn, var kaupmaður á Húsavík að maður nokkur var staddur inni hjá honum og stóð opinn gluggi. Maðurinn leit út um gluggann og sá hvar maður stóð sem hann þekkti ekki, og spurði hver þessi maður væri. Kaupmaður leit út og sagði: „Og það er nú naumast maður þó svo sýnist og ekki er það sjaldgæft að sjá þenna karl hér, en ég skal gera honum bragð.“ Þar lá byssa hlaðin og greip kaupmaður hana og hleypti af henni út um gluggann. Reið skotið rétt við vangann á draugsa, en við það varð honum svo hverft að hann hvarf í burtu. Sagt er það að þau Lalli og Mývatns-Skotta hafi oft fundizt og átzt ýmsar brösur við. Fundum þeirra var svo lýst að þau hefðu fyrst reynt með sér glímu og hefði Lalli ráðið niðurlögum Skottu. En þegar Skotta var fallin og Lalli á hana ofan er sagt að leikir þeirra hafi snúizt upp í blíðubrögð, og eru til tvær sögur um það. Maður nokkur gisti í Húsavík og svaf í skála eða stofu frammi í bænum. Þeim Lalla og Skottu varð reikað þangað inn um nóttina og er það haft eftir manninum að hann hafi séð þessi hjú þar í hvílubrögðum. Hin sagan er svo að maður var að lesa húslestur á bæ, en meðan á því stóð komu þau Lalli inn á baðstofugólfið og léku þar að lyst sinni. Manninum þóttu læti þeirra ill og ósiðleg undir lestrinum; kallaði hann þá upp og bað þau bæði fara bölvuð. Brá þeim svo við bæntekning mannsins að þau hættu og höfðu sig á burt.