Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Hagadraugurinn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hagadraugurinn

Það var einhverju sinni að Haga í Reykjadal að þar bjó bóndi nokkur, merkur og velmegandi maður, og er ekki greint nafn hans. Hann átti eina dóttur barna. Það var einn vetur áliðnu að mikil var umferð í Haga af flökkufólki eins og þá var títt, að þar var unglingsmaður nótt einhverju sinni; sat hann við baðstofudyr og rétti frá sér fætur. Það var einhverju sinni um kvöldið að bóndadóttir gekk um og gætti sín ekki svo hún hrasaði um fætur komumanns. Henni verður skapbrátt og atyrðir hún dreng og segir að landeyða sú geti legið annars staðar en fyrir fótum manna. Hann reiðist orðum hennar og segist ekki muni oftar verða henni að fótakefli, en þó kunni hann að finna hana um það lýkur. Drengur hverfur síðan og er því enginn gaumur gefinn. En að lítilli stundu liðinni fer bóndadóttir í fjós að gefa kúm og mjalta þær. Fer bóndi með henni og skyldi hann taka hey handa kúnum til morgunmálsins því fjósheyið var áfast við fjósið.

En er þau eru fyrir litlu komin inn í fjósið kemur flökkudrengurinn að dyrunum og sér bóndi vegsummerki að hann hefur skorið sig á háls og gengið svo aftur í andarslitrunum. Er draugurinn allæfur og vill inn í fjósið, en bóndi ver dyrnar. Bóndi spyr hvað hann ætli eða hvað hann vilji inn í fjósið. En draugsi kvaðst vilja finna bóndadóttur. Bóndi biður hann gjöra fyrir sig lítið handarvik áður og það sé að leysa hey handa kúnum til morgunsins; skyldi hann fá að finna bóndadóttur að því búnu. Draugsi lætur sér þetta lynda og vísar bóndi honum á fjórspenningsstabba höggfastan og fer draugsi að leysa heyið. En bóndi sendir sem snarast eftir Arnþóri á Sandi. Arnþór kunni margt fyrir sér og var hinn mesti bjargvættur gegn draugum og alls konar fjölkynngi. Bregður hann skjótt við orðsending bónda og kemur í Haga. En er hann kemur er draugsi að enda við að leysa töðustabbann og vill fá verkalaunin hið fljótasta, sem er að finna bóndadóttur. Arnþór tekur á móti draugsa og spyr hvað hann vilji bóndadóttur. Draugsi segir hann það engu skipta. Arnþór spyr hvort honum nægi ekki að sjá hana og lætur draugsi það svo vera. Arnþór biður hann þá að bíða sín meðan hann sæki bóndadóttur. Tekur Arnþór hana og vefur stórum dúk um höfuð hennar svo hún hvorki sjái né heyri. Síðan leiðir hann hana út og sýnir draugsa. Þá segir draugsi að nú hafi nokkur orðið vitsmunur þeirra, hann hafi ekki varazt að hann mundi hafa þenna umbúnað á bóndadóttur því ella mundi hann hafa gjört hana vitlausa. Ærist nú draugsi sem mest og vill fyrir hvern mun að bóndadóttur, en Arnþór varnar honum. Sér hann þó að ekki er auðvelt að koma draugsa fyrir við svo búið. Hann lætur því leiða út rauða kvígu úr fjósi og hleypir hann draugsa á hana. En svo var draugsi æfur að hann tætir kvíguna sundur ögn fyrir ögn. En við það dregur svo af honum að Arnþór getur komið honum niður í dæl nokkurri norðan til á vellinum í Haga. Er svo sagt að hann ræki þar niður hæl mikinn og byndi drauginn þar við og að sá hæll hafi staðið í túninu í Haga allt undir þetta. Enda hefur aldrei orðið mein að draugnum síðan.