Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Hallur á Krýnastöðum
Hallur á Krýnastöðum
Á ofanverðri 18. öld bjó sá bóndi á Krýnastöðum í Eyjafirði er Hallur hét; hann var kvongaður; hann var glímumaður mikill og rammur að afli. Hann fór eitt vor sem oftar með fleirum sveitungum sínum lestaferð vestur undir Jökul til fiskikaupa. Í þeirri ferð bar svo til að hann varð ósáttur við bónda nokkurn þar undir Jöklinum og deildu þeir. Þóttist vestanbóndi verða undir í skiptum þeirra. Heitaðist hann þá við Hall og kvað hann ei skyldu jafntannhvassan annað vor. En Hallur lézt eigi hirða um heitingar hans. Við þetta skildu þeir og reið Hallur heim norður.
Líður nú sumarið og fram á veturinn. Þá var það eitt kvöld eftir dagsetur á öndverðum vetri að drepið var högg á dyr að Krýnastöðum. Ræðir þá einhver heimamanna um hver muni berja svo síð. Hallur bóndi rís upp og mælti: „Hann mun vilja finna mig.“ Snarast hann þá fram og mætir konu sinni í göngunum með ljós í hendi; hafði hún gengið fram að kveikja. Hann slær lampann úr hendi henni og býður henni vara á að engi maður sjái út þá nótt eður forvitnist um sig fyrr en hann komi inn aftur ef þess verði auðið. Eftir það hleypur hann út og er heldur gustmikill. Líður nú vakan og kemur bóndi ei inn aftur, en þó dirfist engi að leita hans og situr allt heimafólk með ugg og ótta. En er mikið var af nótt kemur bóndi inn og gengur þegar til hvílu. Urðu menn þess brátt varir að hann var þrekaður mjög; var búkur hans víða blár og marinn og hold hlaupið saman í hnykla. Engi hafði hann orð um það fyrir alþýðu manna hver hann hefði svo grátt leikið. Lá hann lengi vetrar í rekkju, en varð þó heill um síðir og þó trautt samur maður og áður.
Um vorið eftir fóru Eyfirðingar vestur undir Jökul að kaupa fisk til búa sinna sem þeir voru vanir og var Hallur þá enn í för með þeim; en er þeir komu þangað sem þeir áttu von kaupanauta sinna þá bað Hallur félaga sína að þeir léti sín ei verða getið að sinni þótt einhver spyrði eftir sér. Lá hann inni í tjaldi og lét ei á sér bera. Brátt komu sveitarmenn að tjaldinu og tóku að ræða um fiskikaup við Norðlinga. Þar kom og skiptafélagi Halls sá er fyrr getur. Hann spyr brátt hvort Hallur sé ekki í för með þeim; þeir kveða nei við; en í því er þeir eiga þetta að ræða snarast Hallur út úr tjaldinu og rekur vestanmanninum svo mikið högg að hann liggur þegar í svíma. Var löng stund áður hann raknaði við aftur. Kvað Hallur hann nú sjá mega að hann væri þar kominn þótt hann hefði eigi svo til ætlað, og lét honum ráð að hætta glettingum við sig ef hann vildi eigi hafa verra hlut. Skildi þar með þeim og er eigi getið að þeir ættist við fleira.