Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Haugurinn á Valleyri

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Haugurinn á Valleyri

Á Eyri í Ingólfsfirði hér í sókn bjó fyrrum bóndi sá er Grímur hét; kona hans hét Eirný og liggja þau bæði heygð í Eyrardal, og sést þar enn haugur þeirra; liggur dalur sá upp frá bænum að Eyri sunnanvert við Ingólfsfjörð. Bóndi átti skip mikið sem þeim hjónum þótti vænt um. Er svo sagt að þau er þau tóku mjög að eldast hafi flutt skipið norður yfir Ingólfsfjörð gagnvart Eyri og safnað í það mestum fjárhluta sínum, grafið síðan skipið í eyri einni norðanvert við fjörðinn sem heitir Valleyri. Á eyrinni hafa menn oft þókzt sjá bláleitan loga eins og væri þar fólgið fé í jörðu. Enda tóku sig saman nokkrir menn hér fyrir svo sem þrjátíu árum og fóru að grafa í Valleyri, en urðu að hætta við eftir fáa daga sökum reimleika.