Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Hefnd Staðarhóls-Páls

Á dögum Ara bónda á Reykhólum[1] var eitt sinn lík grafið þar að kirkjunni og gröfin tekin niður með leiði Páls þess er í sögunum er kenndur við Staðarhól. Komu rotin bein upp úr gröfinni eins og oft ber til og voru aftur lögð í hana. Nóttina eftir dreymdi stúlku á bænum að henni þykir maður gamall koma til sín reiðuglegur. Þykist hún spyrja hver hann væri og kvaðst hann heita Páll og mælti: „Ég hélt ég mætti vera ómakslaus í gröf minni, en það var ekki svo. Maðurinn sem illa fór með handleggsbein mín í dag [er ekki hér] og næ ég honum ekki, en illt þykir mér að enginn beri þó menjar mínar.“ Tekur hann þá hendinni fast um handlegg stúlkunnar; varð henni sárt við og hrökk upp af svefni. Kenndi hún jafnskjótt óþolandi verkjar í handleggnum er óx brátt og leiddi hana til bana fám dögum síðar.

  1. Líklega Ara Jónssonar (d. 1816, 68 ára) fremur en Ara móðurbróður hans Teitssonar (d. 1749).