Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Helguhóll
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Helguhóll
Helguhóll
Hjá Grund í Eyjafirði er hóll einn er nefnist Helguhóll. Í þeim hól er sagt að Grundar-Helga hafi látið haugsetja sig, en hún var auðkona hin mesta og þar eftir ágjörn sem síðar verður getið, og segja Eyfirðingar að hún hafi lifað þegar svartidauði geisaði hér. Sagt er að hún hafi látið bera fé mikið í hól þenna; en er menn fóru að grafa í hann sýndist þeim Grundarkirkja vera að brenna. Hlupu þeir þá til og vildu slökkva eldinn, en þetta voru eintómar missýningar til að aftra graftarmönnum frá fyrirtæki sínu.