Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Helltu út úr einum kút
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
„Helltu út úr einum kút“
„Helltu út úr einum kút“
Einhvern tíma voru tveir kunningjar, annar ungur, en hinn aldurhniginn; er svo sagt hann væri ölkær og hafði hinn yngri lofað að bjóða honum í veizlu sína. En áður hún yrði haldin dó hinn gamli maður. Var hann grafinn á hinum sama kirkjustað og hinn kvæntist, og var veizlan haldin á kirkjustaðnum. Um nóttina dreymdi brúðgumann að vinur sinn kæmi til sín. Hann kvað:
- „Helltu út úr einum kút[1]
- ofan í gröf mér búna,
- beinin mín í brennuvín
- bráðlega langa núna.“
Hann fór á fætur og hellti úr fjögra potta kút yfir leiði vinar síns og dreymdi hann ekki framar.
- ↑ Sigurður málari Guðmundsson hefur fyrsta vo. þannig:
- „Helltu' úr kút með enga sút.“