Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Hjaltastaðafjandinn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hjaltastaðafjandinn

Jón sýslumaður Espólín sem vikið hefur á svo margt kynlegt í „Árbókum“ sínum hefur einnig tekið inn í þær frásögu um andann á Hjaltastöðum í Múlasýslu og kallað ævintýr. Frásögnin hjá Espólín er reyndar nokkuð öðruvísi en hér og er það ekki að furða; hitt er meiri furða hvað hún er þó lík þessari sem er tekin eftir bréfi Hans sýslumanns Wium sem Espólin vænir svo berlega lygi. En bréfið er þannig:

„Hjaltastaðafjandinn lét sig heyra nógu skorinorðan í vetur, jafnvel þótt enginn sæi hann. Ég hafði þá vanæru ásamt öðrum að heyra hann loquentem[1] nærri tvö dægur á hverjum hann ávarpaði mig og prestinn séra Grím þeim orðum, hverjum lík ei hefur auga séð og ekki eyra heyrt. Það fyrsta við komum þar á hlaðið[2] kom upp í dyrunum svo látandi ferrea vox:[3] „So nú er Hans á Eiðum kominn, bölvaður beinmarkinn,[4] og vill tala við mig.“ Sá titill hans hjá öðrum mér gefnum mátti álítast sem laudabilis hjá haud contemnendo.[5] Nær ég spurði svo að hver mig slíkum orðum ávarpaði svaraði hann voce feroci:[6] „Ég hét í fyrstunni Lucifer, en nú heiti ég djöfull og andskoti.“ Hann fleygði að okkur bæði grjóti og steinum og trjám, líka og öðru, braut glugga tvo úr stofu prestsins. Hann talaði svo nærri okkur að við vissum ei betur en hann væri rétt við hliðina á okkur. Kerling var þar ein að nafni Opía hverja hann kallaði konu sína og himneskan blessaðan sálarlóm“, bað og séra Grím að copulera[7] þau með fleiri að lútandi circumstantiis[8] er ég ei muna vil. Iðulega bað þessi fjandi kerlinguna um það að mega hátta hjá henni et quae praeterea publica verba juvant.[9] Ég nenni varla að skrifa um hans fyrirtektir sem allar voru vanvirða og skömm eftir eiginlegu eðli auctoris.[10] Hann las þrisvar faðirvor, svaraði úr Jónsspurningum og Biblíunni, sagði að djöflar hefðu messur í helvíti og hvað þeir hefðu fyrir texta og söng sem tímanum hagaði; það var allt miður á sig komið en þess geti hér minnzt orðið. Hann bað okkur að gefa sér af mat þeim sem með fórum og að drekka te o. s. frv. Ég spurði þenna karl hvort guð væri góður. Hann sagði já. Hvort hann væri sannorður. Hann svaraði: „Það er ekki að tvíla eitt hans orð.“ Séra Grímur spurði hann að hvort skrattinn væri fallegur. Hann svaraði: „Allt er hann fallegri en þú, bölvað greppatrýnið þitt.“ Ég spurði hann að hvort djöflunum kæmi vel saman. Hann svaraði svo sem kjökrandi: „Það er kvöl að vita til þess að þeir hafa aldrei frið.“ Ég bað hann að tala við mig í þýzku nokkuð og sagði til hans: „Lasz uns Teusc reðre.”[11] En hann notaði sér síðasta orðið sem hann hefði haldið mig konuþurfa. Þegar við fórum að hátta um kvöldið kallaði hann upp grimmdarlega á gólfinu og sagði: „Nú skal ég á þessari nótt klussa ykkur til helvítis og þið skuluð ekki fara svo úr rúminu sem þið leggizt niður.“ Hann bauð góðar nætur konunni prestsins um kvöldið.

Um nóttina vorum við séra Grímur að tala við hann undir dag; meðal annars spurðum við hann hvernin úti væri. Hann svaraði: „Hann er kaldur á utan og norðan.“ Hvort honum væri kalt. Hann svaraði: „Ég ætla mér sé bæði heitt og kalt.“ Ég spurði hann hvað hátt hann gæti hljóðað. Hann svaraði: „Svo hátt að þakið fari af húsinu og þið dettið allir í dauðrot.“ Ég sagði hann skyldi reyna það. Hann svaraði: „Meinar þú ég sé kominn að leika fyrir þér, bölvaður beinmarkinn?“ Ég sagði hann skyldi sýna okkur nokkuð lítið specimen[12] Hann sagðist það gera skyldi og rak upp þrjú hljóð, en það síðasta var svo ljótt að ég hef aldrei annað ljótara heyrt, efa og að heyra muni.

Undir daginn eftir að hann með siðvanalegum complimenter hafði við okkur skilið sofnuðum við. En um morguninn kom hann inn aftur og fór að vekja, nefndi svo hvern einn með nafni og gleymdi samt ei að gefa nokkrum bínöfn og spurði hvort sá og sá væri vaknaður. Nær hann merkti það sagðist hann verða að leika við hurðartetrið sitt og hýddi í því sama hurðina af hjörunum og langt innar á gólfið og það í snöggvum rykk. Undarlegast var það að nær hann snaraði þá fór það sem snarað var strax niður, en eftir það færðist þaðan aftur rétt, svo sýnilegt var að annaðhvort fór hann í það eður varð því samferða. Um kvöldið fyrir manaði hann mig víst tvisvar fram í myrkrið til sín og það reiðulega, sagðist skyldi tæta mig bein frá beini. Ég fór fram og sagði hann skyldi koma. en þá var alls ekkert. Nær ég kom aftur og spurði því hann hefði ekki fullkomnað sitt loforð svaraði hann: „Ég hef þar ei bífalning til af mínum húsbónda.“ Hann spurði okkur hvort við hefðum heyrt þvílíkt nokkurn tíma áður og nær við sögðum já, sagði hann: „Það er ei satt; slíkt hefur aldrei heyrzt frá aldaöðli.“ Hann hafði sungið „Jesú minning,“ eftir það ég kom þar, talað iðulega meðan farið var með guðs orð. Ekki sagðist hann gefa sig neitt að því þó guðs orð væri um hönd haft, nema hann sagði sér væri ekki um „Krossskóla sálma“. og það hefði mátt vera mikill helvízkur beinmarki sem þá hefði samsett.

Þessi óvinur kom sem fjandi, fór burt eins á sig kominn og hagaði sér meðan hann var sem fjandi, og engum nema fjandanum hæfir að útskýra það allt með orðum er hann rausaði. Samt er ekki því að leyna að ég þykist ekki yfirbevísaður að öllu um það að þetta hafi andi verið hverjar mínar passioner[13] ég fæ þó ekki hér til fært vegna tímans óhentisemi.“

  1. Þ. e.: talandi.
  2. Þ. e. á Hjaltastöðum.
  3. Eftir orðunum: járnrödd (herfileg rödd).
  4. Þessa mannkenning hef ég aldrei heyrt fyrri, en þess oftar „beinasni“ í atyrðum.
  5. Eftir orðunum: lofsverður hjá öðrum ólastandi; þ. e. illskárri en annar verri.
  6. grimmdarraust.
  7. gefa saman.
  8. ummælum.
  9. auk annars sem haft er í óvönduðum munnsöfnuði.
  10. höfundar.
  11. Þ. e. eftir orðunum: Látum oss tala þýzku.
  12. Þ. e. sýnishorn.
  13. Eiginlega: tilhneigingar, þ. e. að álíta þetta ekki anda.