Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Hleiðargarðs-Sigga

Ofarliga á átjándu öld bjó bóndi sá á Hleiðargarði í Eyjafirði sem Sigurður hét Bjarnarson. Hleiðargarður er næsti bær við Sandhóla. Eitt sinn um vöku á vetrartíma á Sandhólum var komið á skjáglugga yfir rúmi kellingar er var í baðstofunni. Kelling heyrir óglöggt hvað sagt er á glugganum og spyr hver úti sé og heyrir hún að sagt er: „Sigga. Sigga“ – og spurt um leið: „Hvar er Hleiðargarður?“ Kelling segir hann sé næsti bær fram með hlíðinni og tekur hún síðan úr skjáinn svo hún sjái Siggu þessa. Tunglskin var úti og sér kelling að hún situr við gluggann og skælir sig móti tunglinu. Varð kellingu ósvipt við, því hún sá að þetta var draugur, en maður ekki; getur hún þó mælt fyrir munni sér að Sigga skyldi fara bölvuð, og fauk hún við það frá glugganum, en kelling lét í skjáinn.

Sama kvöldið var það á Hleiðargarði að Sigurður bóndi svaf og lét illa í svefni; vaknar hann og blæs mæðilega, gengur ofan á baðstofugólfið og að baðstofuhurð og segir: „Ef hér er nokkur sem vill finna Sigurð Björnsson þá liggur hann þarna inn á skákinni“ – og bendir á smaladreng sem lá sofandi á skák móti baðstofudyrum. gengur svo til rúms síns, en áður en hann var setztur bregður smalanum svo að hann vaknar og brýzt um með mestu harmkvælum sem enduðu við dauða hans um nóttina. Eftir þetta þókti Sigga ganga ljósum logum um í Hleiðargarði, en nokkur ár varðist Sigurður henni. En aldrei var hann við alþýðu eftir að hún kom til hans. Oft sást hann á sumrum einn á gangi um og kringum túnið.

Hvað Sigga gjörði meira illt í Hleiðargarði en að drepa drenginn, hvað henni var eignað, er ei getið. Sigurður bóndi dó líka voveifliga á Akureyri; féll hann þar niður með froðufalli og umbrotum miklum og deyði af því. Var mönnum grunur á að draugurinn mundi því valdið hafa. Þess er ekki getið hvaðan Sigga var send eða hverjar hefndir sá átti að gjalda Sigurði sem sendi hana; helzt var þó ætlað að hún mundi að sunnan. Seinast var hún af kunnáttumanni eyfirzkum bundin, sem menn kalla, í Spjaldhaga, og varð úr því ekki vart við hana.