Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Hvítárvalla-Skotta

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hvítárvalla-Skotta

Sigurður er maður nefndur; hann var Jónsson, ættaður frá Einarsnesi í Borgarhrepp; hann bjó á Hvítárvöllum í Borgarfirði. Sigurður var sýslumaður í Borgarfjarðarsýslu (1704-1738, eða þó heldur til 1741). Kona Sigurðar sýslumanns hét Ólöf; hún var dóttir Jóns Magnússonar eldra á Eyri í Seyðisfirði vestra og Ingibjargar dóttur Páls prests Bjarnarsonar í Selárdal í Barðastrandarsýslu (1645-1706 og prófasts í sömu sýslu um 50 ár eða lengur). Kona Páls prófasts, móðir Ingibjargar, hét Helga og var Halldórsdóttir, sú er varð fyrir galdraásóknunum 1669 og Espólín getur um að hafi verið beðið fyrir „til guðs í söfnuðum þar vestra“. Ólöf Jónsdóttir kona Sigurðar sýslumanns hafði alizt upp vestra hjá foreldrum sínum; hún var kona væn og sköruleg og gjörðust margir þar vestra til að biðja hennar, en Sigurður Jónsson varð hlutskarpastur og fékk hennar.

Það má að líkindum ráða að biðlunum hafi vaxið hatur til þeirra hjóna, Sigurðar og Ólafar, en engar eru ljósar sagnir frá því. En almæli er að einhver af hinum fyrri biðlum Ólafar hafi vakið upp draug og sent henni; mælti hann svo um að hann skyldi fylgja Ólöfu. Þessi draugur var karlkyns og var hann kallaður Stormhöttur. Hann fylgdi Ólöfu nokkurn tíma og var allfrægur. Ætlandi er að Sigurði hafi eigi verið vel í þokka við þenna fylgisvein konu sinnar og leið ei langt um áður hann fékk af kunnáttumönnum að koma honum fyrir; var hann settur niður í Heggstaðaásum skammt suðaustur frá Hvítárvöllum og kom aldrei upp síðan, en jafnan þykir óhreint í ásum þeim.

Aðrir segja svo frá afdrifum Stormhattar að Ólöf hafi komið út fyrst þegar hann kom að Hvítárvöllum og mætt honum á hlaðinu, en þegar hún vissi erindi hans hafi hún sagt við hann: „Farðu til andskotans norður á heygarð,“ og sé það sami draugurinn sem liggi þar á heyjum svo þau rjúfi ekki.[1]

En er það fréttist vestur að búið væri að ráða Stormhött af dögum þóttust þeir er höfðu sent hann grátt leiknir og hugðust að senda Sigurði sjálfum sendingu er honum skyldi að fullu ríða. Vöktu þeir þá upp kvenmann, mögnuðu hana og sendu til ófarnaðar Sigurði. Eitt sinn var Sigurður á ferð við annan mann fyrir vestan Hvítá. Þá sjá þeir að eftir þeim rennur mórauð tófa. En er hún nálgast þá þykir þeim tófa sú nokkuð frábrugðin, því hún ávarpar þá og spyr hvar Sigurðar á Hvítárvöllum sé að leita. Sýslumann grunar hvað í efni muni vera og heldur að ekki sé lakara að láta hana þreyta sig dálítið og segir henni því að Sigurður sýslumaður sé niðri á Álftanesi. Tófa snýr þá af leið og bregður sér þangað, en sýslumaður hélt áfram sem af tók heim að Hvítárvöllum því hann átti skammt heim. En er hann var öldungis nýkominn heim og var að fara úr kjólnum var ráðizt á hann allóþyrmilega og varpað niður á stofugólfið því hann var ekki búinn við glímu í það sinn.

Önnur sögn er það að Skotta hafi náð Sigurði við ferjuna yfir Hvítá; þá var með Sigurði vinnumaður hans einn er bæði var ötull og skyggn. Hann sá það að Skotta ætlaði upp í bátinn, en með því hann þóttist vita hvað vera mundi þrífur hann hnakkinn sýslumannsins og fleygir í hana, og halda þeir svo suður yfir ána hið bráðasta. En Skotta tók hnakkinn og reið klofvega í honum á vestri bakka Hvítár þó hann væri latur unz þar bar að annan mann sem ekki sá hana, en þekkti hnakk sýslumannsins og hirti hann. Síðan var hann ferjaður suður yfir og færði Sigurði hnakkinn og sagði að hann mundi hafa gleymzt fyrir vestan á. En það tækifæri notaði Skotta til að komast suður yfir ána svo enginn varð var við sem á ferjunni voru.

Sigurður var hið mesta karlmenni, en þó þurfti hann hjálpar á móti þessum fjanda. Loksins gat hann losað sig við hana, en ekki gat hann yfirbugað hana svo að hún fylgdi honum og ætt hans og fylgir hún niðjum hans enn í dag. Þá er hún glímdi við Sigurð var hún búin að kasta tófuhamnum og var þá í konulíki. Búningi hennar er svo lýst að hún var í belghempu svartri með gamaldags fald á höfði, en faldhornið lafði aftur á hnakkann sem skott væri; dró hún nafn af því og var kölluð Skotta. En sökum þess hún var send að Hvítárvöllum var hún Hvítárvalla-Skotta kölluð og er það nafn æði almennt, en síðar fékk hún önnur nöfn er enn mun sagt verða.

Enn er önnur sögn um það hvar Skotta hafi hitt Sigurð. Er sagt að hún hafi fyrst komið að Hvítárvöllum og spurt að Sigurði. Henni var sagt hann væri uppi í Stafholti. Hún kom á glugga í Stafholti þar sem Sigurður svaf inni og spurði eftir Sigurði á Hvítárvöllum. Sigurður gegndi sjálfur og hvað hann vera frammi í Reykholti; fór hún þegar. Sigurður lét taka hest sinn hið skjótasta og reið skemmstu leið heim. Var það mjög jafnsnemma að Sigurður reið í hlað að norðan og Skotta kom að austan, og var hún þá búin að fara að Reykholti og komin þaðan aftur.

Ekki verður hér greinilega sagt frá spillvirkjum Skottu á meðan hún fylgdi Sigurði sýslumanni, en mjög þótti hann jafnan sækja illa að þar sem hann kom; var það oft að stórgripir, kýr og hestar, lágu dauðir eða lamaðir og eignuðu menn það Skottu; varð og Sigurður oft að bæta fyrir hana.

Þegar Sigurður og kona hans voru orðin aldurhnigin sleppti hann sýslustörfum. Þá bar það við eina nótt eftir þorrann (1751) að bærinn á Hvítárvöllum brann og er mælt það yrði af tóbakspípueldi. Páll sonur þeirra hjóna gat bjargað þeim úr eldinum, en brann inni sjálfur með fimm mönnum öðrum. Bruna þennan eignuðu sumir óbænum Guðríðar Hinriksdóttur systur þeirra bræðra Ólafs og Sigurðar Hinrikssona er voru vinnumenn á Hvítárvöllum og dóu þar, sökum þess að Sigurður sýslumaður hefði ei viljað unna henni arfs eftir þá, en hann hafði tekið undir sig jörðina Hvítárvelli. Aðrir eignuðu brunann Skottu. Eftir brunann fór Sigurður vestur að Setbergi til frænda sinna.

Synir Sigurðar sýslumanns og Ólafar voru Páll er inni brann á Hvítárvöllum og Jón prestur í Hvammi í Norðurárdal (1752, † 1780). Hann átti fyrir konu Kristínu Guðmundsdóttur systur frú Þórunnar og Eggerts á Álftanesi. Séra Jón Sigurðsson og Kristín kona hans áttu dóttur er Ragnheiður hét; hún giftist Jóni Jónssyni yngra presti að Gilsbakka (1771, † 1796). Þeirra börn voru: séra Jón á Bergsstöðum (1826, † 1838 eða 1839), húsfrúrnar Kristín í Víðidalstungu og Halla fyrri kona Jóns á Leirá. Ragnheiður Jónsdóttir missti mann sinn og giftist aftur Einari Guðbrandssyni aðstoðarpresti í Hvammi 1801, og bjuggu þau að Brekku í Norðurárdal. Þá var prestur í Hvammi Þórður Þorsteinsson.

Litlar eru sagnir um Skottu á þessu tímabili, en þó fylgdi hún þeim Gilsbakkahjónum og þóttust menn sjá hana trítla á undan séra Jóni þegar hann reið á annexíuna að Síðumúla; var hún jafnan komin í tún í Síðumúla þegar sást til prests á Háafellsmelum, en Háafell er fremsti bær í Síðumúlasókn.

Eftir að húsfrú Ragnheiður giftist séra Einari og þau fluttu að Brekku var hún kölluð Brekku-Skotta. Ekki eru talin mörg afreksverk hennar þar; þó var henni eignað að hún hefði drepið vinnumann á Brekku er Gunnar hét; gekk hann í fjós um kvöld; annaðhvort var hann að bera vatn að fjósamanni eða vita hvernig liði í fjósinu; en hvað sem um það var fannst hann dauður í fjósranghalanum, en fjósamanninum heyrðist sem hörð húð væri dregin í sama bili eftir fjósmæninum. Eitt sinn var Þórður prestur í Hvammi á reið um sókn sína; hafði hann farið niður í dal að erindum sínum og lá leið hans um bakka þá er liggja á milli bæjanna Brekku og Hraunsnefs og kallast Pálsengi. Prestur sér þá hvar Skotta kemur að honum. Hefur hún engar sveiflur á því nema sezt á bak fyrir aftan hann. Prestur var maður einbeittur og lét sér ekki bilt við verða. Rennir hann sér hið skjótasta af baki, sker á gjörðina og strýkur hnakkinn aftur af. Því næst fer prestur á bak aftur og reið berbakt heim til sín, en Skotta sást sitja í hnakknum lengi um daginn og barði fótastokkinn.

Eftir dauða húsfrú Ragnheiðar fylgdi Skotta þeim börnum hennar. Kristín dóttir hennar átti Jón stúdent Friðriksson Thorarensen í Víðidalstungu. Honum þótti Skotta enginn þokkagestur í ætt sinni og vildi því verða laus við hana. Skotta var þá gömul orðin og gengin mjög að knjám sem von var því fáir höfðu orðið til að skæða hana. Bar þá saman fundum þeirra er Jón kom úr suðurferð og reið norður Arnarvatnsheiði. Hann spurði Skottu á hvaða ferð hún væri, en hún kvaðst ætla að finna konu hans. En með því Skotta var orðin sárfætt og Jón vildi verða laus við hana samdist svo með þeim að hún skyldi láta ætt hans í friði, en hann skyldi gefa henni á fæturna. Fór hann þá úr rammgjörvum reiðstígvélum járnuðum og kastaði þeim til hennar, en hún fór í þegar og hvarf síðan.

Ekki hafa menn neinar sögur um að hún hafi fylgt Jóni presti á Bergsstöðum, en þó virðist svo hafa verið því álitið er að hún fylgi Jónasi syni hans sem nú er bóndi í Arnarholti í Stofholtstungum og þykir hann jafnan sækja illa að þegar hann kemur einhverstaðar. Eftir það þau skildu Jón í Víðidalstungu og Skotta er það sögn manna að hún hafi helzt haldið sér að Höllu fyrri konu Jóns á Leirá, enda gjörði hún honum ýmsar glettur, drap fyrir honum gripi og annað þess konar. Jón var fyrstu ár búskapar síns í Kalmanstungu í Hvítársíðu. Þaðan fluttist hann að Leirá; var Skotta eftir það kölluð Leirár-Skotta og því nafni heldur hún enn og fylgir fyrri konu börnum Jóns á Leirá. Lítið er að segja um afrek hennar síðan því mjög er hún gömul orðin og farin og það svo að haft er eftir henni sjálfri að hún geti ekki dregið sig öðruvísi en að skríða á hnjánum, enda er hún komin talsvert yfir hinn venjulega draugaaldur, 120 ár.

Þó þykir Leirárfólk jafnan sækja illa að þegar það kemur einhvers staðar og oft þykjast menn sjá hana á Akranesi því bæði róa þar vinnumenn frá Leirá og koma þangað í ýmsum erindagjörðum, en jafnan þykir verða vart við Skottu á undan þeim.

  1. Sbr. Heygarðsdraugurinn á Hvítárvöllum.