Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Jóka

Jóakim hét ungur maður á Garðsá í Eyjafirði. Hann komst í kunningskap við stúlku er Jórunn hét í Hvammi í Hrafnagilssókn. Á jólaföstunni bar svo við að hún vildi fara kynnisferð norður að Grenjaðarstað, og fylgdi Jóakim henni. Þau ætluðu Bíldsárskarð og gengu upp gil það er liggur ofan úr skarðinu, og dimmdi að af hríð. Nú gengu þau upp gilið, en þá féll á þau snjóflóð svo stúlkan lenti í því, en hann komst úr því um kveldið, og í hríðinni komst hann ofan að Brekku.

Þegar birti upp hríðina var farið að leita og fannst hún örend í snjóflóðinu; hún var lögð á sleða sem átti að aka henni heim á, en þegar leitarmenn fóru ofan gilið tók snjóflóð sleðann með henni á aftur, og fóru heim við svo búið. Þarna sat hún tvo eða þrjá daga þar til þeir gátu fundið sleðann; svo var hún jörðuð. En þegar leið á veturinn fór Jóakim að dreyma hana og sá hana líka, en hann lét lítið á því bera.

Næsta haust eftir fór hann í göngu norður í Fnjóskadal og tjaldaði hann með öðrum mönnum í Réttarnesi á Bleiksmýrardal. Um nóttina þá vaknaði einn af félögum hans og saknaði hans úr tjaldinu; hann vakti hina og fóru þeir að leita, en tunglsljós var. Þeir fundu hann þá niður undir á sofandi og gátu þeir loks vakið hann; hann var þá svo máttvana að þeir þurftu að bera hann til tjaldsins og vóru þá bólgnir og bláir fætur hans og sáust eins og fingraför á þeim. Hann sagðist hafa dreymt hana og hún hefði dregið sig á fótunum og ætlað með hann í ána. Svo var hann fluttur heim og reyndar lækningar við fætur hans, en ekkert dugði þar til einn maður ráðlagði að skera torfu upp úr leiði Jóku og leggja við fæturnar (það skal vera ráðið) og þá batnaði honum. Þá tók fólk að dreyma hana og meir [að segja] að sjá hana, skyggnir sem óskyggnir á undan Jóakim.

Nú leið og beið að hann giftist konu, Jórunni að nafni, og fór að búa á Ytrahóli í Kaupangssveit. Hann eignaðist dreng með konunni, og var mesta efnisbarn þar til hann var fjögra vetra, þá varð hann afsinna og eins og fábjáni og varð hann tvítugur. Það kenndu menn Jóku og töldu menn það víst við þann atburð er skeði.

Óluf nokkur, kerling utan úr Kræklingahlíð, kom að Ytrahóli eitt vor um stekkjartímann; þá var hún beðin að vera hjá drengnum heima meðan fólkið var við stekkinn; hún gerir það og sezt á rúmstokk hjónanna með prjóna sína, en drengurinn ríslar um gólfið og hleypur fram í baðstofudyrnar. Hún fer að taka eftir því að drengur kemur blóðrjóður og eins [og] hræddur til hennar, og spurði hann hvað hann hræddist; hann sagði stúlku er kæmi inn; hún fer svo með honum fram að dyrunum; þá sér hún stelpu í göngunum reka inn hausinn, á svartri hempu og rauðum sokkum eins og hún varð úti; hún hverfur þá, en kerling sezt á pallstokkinn. Þá fer drengur að horfa út í gluggann; kerling tekur eftir því; fer hún þá upp á rúmið aftur og sezt móti glugganum; þá sýnist henni skuggi bera við honum; hana grunar hvers kyns er og fer að tauta eitthvað og vísa henni braut, og varð drengur ei var um hana framar um kveldið.

Oft drap Jóka skepnur fyrir Jóakim.

Löngu seinna dó kona hans, og var sá siður í þá daga að vaka yfir líkum með ljósi; en svo var Jóakim myrkfælinn að hann treystist ekki til þess einn og fékk sér Árna Markússon er seinna bjó í Kaupangi og er nýdáinn, einhuga maður, að vaka með sér, en tvívegis var eins og ljósið væri drepið fyrir þeim, og kvað Árni væri bezt að sitja í myrkrinu, og varð það af. Oft heyrðist Árna eins og gengið væri um bæinn og stofuna og tvisvar heyrðist honum gengið upp um stofuþekjuna úti, en engin sá hann förin er hann út kom og hugði að. Jóakim þessi flutti sig eftir þetta á Austurland og vita menn ógjörla um hann eða Jóku síðan.

Einu sinni sem oftar um sumartíma var grafið í Kaupangskirkjugarði og hittist svo á að komið var ofan á kistu Jóku. Jón sem bjó þá í Kaupangi og seinna á Hallandi á Svalbarðsströnd var einn af grafarmönnum; hann var gáskafullur og segir til hinna [að] gaman væri að vita hvert kella væri í kistunni eða lægi rétt; hinir kváðu það óþarfi, en hann tekur eigi að síður járnkarl og rekur gat í kistuna og segir: „Þarna er hún þá kyrr.“ Um haustið fer hann fram á Staðarbyggð og ríður til baka um kveldið, en þegar hann kemur út fyrir Þverá kemur hann hestinum hvergi áfram og sér hann þá fram undan sér eins og hvítan strók; hesturinn með frýsi hleypur með hann þar til Jón hrýtur af baki og brákaðist öxlin í liðnum svo hann varð aldrei jafngóður í henni.