Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Jón dúkur og vofurnar

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Jón dúkur og vofurnar

Jón hét maður að auknafni dúkur; hann var skagfirzkur og kenndur við bæinn Dúk í Sæmundarhlíð. Hann dvaldi um hríð í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Hann var eitt sumar sendur þaðan með bréf austur á land og skyldi fara í kaupavinnu um leið. Varð hann þá kaupamaður hjá ekkju einni. Honum þótti of heitt að sofa inni í baðstofu og bað hana því að lofa sér að sofa frammi í skála; hún færðist heldur undan því og kvað ei öllum hent að sofa þar. Jón var maður ófælinn og kvaðst ei hirða um neinar grýlur. Réð hann því að hann svaf í skálanum. Þar var eitt rúm innst fyrir stafni; það stóð á lofti og var hátt undir það. Hið fyrsta kvöld er hann skyldi sofa þar háttar hann og liggur svo stundarkorn vakandi. Og er hann hefir eigi lengi legið þá sér hann að þar kemur inn unglegur maður, berhöfðaður og alvotur. Hann gengur innar að rúminu og snýr síðan aftur til dyra, en þá kemur þar stelpa í flasið á honum, skorin á háls, og sér í gapandi sárið. Hún ræður þegar á hinn unga mann og verða þar sviptingar óþyrmilegar með þeim; hrekur hún hann allt innar að rúminu, en þá hætta þau allt í einu og ætla að snúa út aftur. En í því kemur inn kvíga allillileg og ræður á þau; verður þar nú harður aðgangur svo Jóni þykir sem skálinn nötri við. Berst þessi leikur loks innar að rekkju Jóns, en þá létta þau áflogunum og hverfa öll upp undir rúmið. Bregður þá Jóni kynlega við að honum finnst sem allt magn dragi úr fótum sér. Hann hafði þar í rúminu hjá sér kníf í skeiðum. Hann þrífur nú knífinn og bregður honum þrem sinnum í kross yfir fætur sér. Kemur þá öll hersingin fram undan rúminu, en hann fær aftur mátt sinn. Hann stekkur nú ofan bölvandi með nakinn knífinn og ætlar að reka hann í vofurnar, en þær hörfa undan og fram úr skálanum. Jón hleypur á eftir og sýnist honum þær þá hverfa upp um bæjardyrarjáfrið og hefir hann ei meira af þeim. Hann snýr nú aftur inn í skálann, leggst niður í rúm sitt og sefur rólega af til morguns. Um morguninn spyr kerling hann hvort hann hafi einskis orðið var í skálanum um nóttina. Hann segir henni hvað fyrir sig hafi borið. „Þetta grunaði mig lengi,“ segir hún, „hefir hinn unglegi maður verið svipur sonar míns er drukknaði í vor hérna í ánni sem rennur hjá bænum; var hann oft vanur því, þá hann lifði, að sofa frammi í skála. Hálsskorna stelpan hefir verið vofa vinnukonu minnar einnar. Hún varð ástfangin í syni mínum, en hann vildi ei taka henni. Fékk það henni svo mikils að hún skar sig á háls og ásótti síðan son minn þangað til hann drukknaði. En kvígan er ættarfylgja mín og mun hún hafa viljað veita vofu sonar míns lið.“

Jón svaf eftir þetta í skálanum meðan hann dvaldi hjá kerlingu, og varð ei framar var neins reimleika. Sagði hann kunningjum sínum seinna frá þessari sögu.