Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Kerlingin afturgengna

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Kerlingin afturgengna

Það var fyrir fáum árum að tveir menn áttu tal saman; kom þar margt á góma meðal þeirra og þar á meðal töluðu þeir um drauga og dauða menn. Kvaðst annar þeirra jafnan skyldi gjöra þeim dauðum manni er hann fyndi það gott er hann gæti. En hinn kvaðst ekkert mundi hirða um þótt hann fyndi lík og ganga fram hjá því eins og öðru hræi. Sá maður hét Ketill og var vinnumaður Kr[istjáns] Skúlas[onar] kammeráðs á Skarði.

Leið nú nokkur tími. Einu sinni var Ketill á ferð og fann hann þá dauða kerlingu; gekk hann fram hjá henni og hirti ekkert um hana; kemst nú heim um kveldið og leggst niður að sofa. En þegar hann er sofnaður þá dreymir hann að kerling komi til sín og segi: „Ekki þakka ég þér fyrir það sem þú gjörðir mér gott í dag því þú gjörðir mér hvorki gott né illt.“ Sýndist hún honum svo voðaleg að hann vaknaði; grípur nú sax er var hjá rúmi hans og hleypur á kerlingu – því hann þóttist sjá hana þá hann vaknaði – með miklum blótsyrðum og segir: „Viltu að ég reki hnífinn í andskotann á þér?" En í því hvarf hún. Sofnar hann nú aftur og þótti honum að kerling koma í annað skipti með lungun úr sér og vildi sletta þeim framan í hann og gekk alveg að rúminu. Vaknar hann og grípur saxið og vill höggva til kerlingar, en hún hvarf sem fyrr. Sofnar hann nú í þriðja sinni; þótti honum að hún þá koma aftur og ætlaði að hengja hann. Verður honum þá heldur en ekki bilt við og grípur nú saxið, stekkur ofan úr rúminu og eltir kerlingu út í dyr. En hún hvarf þá sem fyrr. Brauzt hann svo mjög um í seinasta skipti sem kerling kom að allt fólkið vaknaði. Eftir þetta fylgdi kerling honum jafnan hvert sem hann fór; t. a. m. eitt sinn var hann um vetrartíma í muggukafaldi síðla dags niður í nesi því er Frakkanes heitir og gætti sauða; vildi hann þá reka þá til húsa og lagði á stað með þá. En þá hann hefur nokkra hríð rekið sauðina, heyrir hann nið mikinn og suðu; er hann þá kominn rétt fram á ísbrún með alla sauðina og þar hitti maður hann er sendur var að leita að honum og kom honum með sauðunum heim, en karl kvað kerlingu hafa villt um sig.