Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Konan með rauðu húfuna

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Konan með rauðu húfuna

Á prestssetri einu var próventukona öldruð. Hún átti oft í brösum við vinnufólkið og var stundum grátt leikin af vinnumanni þeim er Jón hét. Hún hézt því við hann skömmu fyrir andlát sitt að hún skyldi hefna á honum misgjörða við sig. Skömmu eftir dauða kerlingar varð Jón úti, en líkið fannst ekki fyrr en löngu síðar og var það þá grafið; um nóttina eftir var gröfin rifin upp aftur og kistan brotin. Var svo lík hans grafið í annað og þriðja sinn, en ávallt fór á sömu leið um líkið, að því gagnaðist ekki að liggja í gröfinni. Presturinn tók það þá til bragðs að hann lét líkið í poka og lét hann vera á hurðarbaki í kirkjunni.

Liðu nú fram tímar þangað til ein af vinnukonum prests er Guðrún hét glataði tóbaksdósunum sínum. Um kvöldið fór hún að bera sig illa yfir missi sínum svo að presturinn bauð henni loksins nýjar dósir og tóbak í ef hún færi þá út í kirkju og sækti þangað beinapokann. Hún lét sér það ekki í augum vaxa og sótti pokann. Um nóttina kom Jón til hennar og mælti: „Illa hefur þú farið með bein mín og hlýtur að bæta mér það að fullu; láttu nú sjá og farðu á nýjársnótt út í kirkju og segðu við konuna með rauðu húfuna: „Fyrirgefðu beinagrindinni sem liggur á hurðarbaki.“ Guðrún gjörði eins og henni var boðið, fór út í kirkju á nýjársnótt; var hún þá full af fólki og þekkti hún ekkert af því, og var þar með kona með rauða húfu. Guðrún gekk til hennar og skilaði til hennar sömu orðunum sem henni voru lögð í munn. Konan svaraði með harðri rödd: „Já.“ Morguninn eftir sagði vinnukona presti upp alla sögu. Voru þá enn grafin bein Jóns og var ekki hreyft við gröfinni eftir það.