Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Leiðið í Skriðuklausturskirkjugarði

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Leiðið í Skriðuklausturskirkjugarði

Jón hét maður og var Einarsson. Hann var um tíma vinnumaður á Skriðuklaustri í Fljótsdal; eftir það fór hann þaðan og dó á Valþjófsstað fyrir hér um bil sextán árum (1860). Þegar hann var vinnumaður á klaustrinu dreymdi hann eina nótt að maður kom til hans í svefni; hann sagðist eiga gröf í landsuðurhorni kirkjugarðsins og bað að grafa sig upp aftur og snúa leiði sínu í norður og suður, gagnstætt því sem annara leiði snúi því hann sé ekki verður að ligja eins og aðrir framliðnir. Jón vaknar við þetta og þykist sjá á eftir manninum er hann fer burtu. Eftir það sofnar Jón aftur og hirðir ekki um drauminn. Dreymir hann þá enn sama manninn og þykir hann þá koma til sín með meiri alvörusvip en hið fyrra sinn og spyrja sig hvort hann ætlaði að gjöra það fyrir sig að grafa sig öðru vísi en aðra menn. Jón vaknar við það og þykist sjá er hinn dauði gengur frá sér aftur. Jón fer enn og sofnar og dreymir hinn sama mann í þriðja sinn. Þykir honum hann nú vera með reiðisvip og segja: „Þú skalt hafa verra af því ef þú gjörir ekki þetta fyrir mig.“ Vaknar Jón þá og þykist enn sjá manninn í því hann fer frá rúminu. Einsetur Jón sér nú að grafa upp leiðið þegar daginn eftir þar sem hinn hafi til tekið. Eftir það sofnar Jón og sefur af til morguns. Þegar Jón er kominn á fætur tekur hann sér reku í hönd, fer út í kirkjugarð og grefur upp leiðið sem honum var tilvísað, kemur þar niður á mannsbein og grefur þau aftur gagnstætt því sem aðrir liggja, í norður og suður, gengur svo vel frá gröfinni og gjörir upp leiðið, og er það eina leiðið sem svo snýr í kirkjugarðinum á Skriðuklaustri og hefur aldrei borið neitt á hinum framliðna síðan.