Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Logi í Gunnsteinsstaðahólma
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Logi í Gunnsteinsstaðahólma
Logi í Gunnsteinsstaðahólma
Arnljótur bóndi á Gunnsteinsstöðum (1847) sá einu sinni loga fram á eyrunum þar sem heitir Gunnsteinsstaðahólmi. Arnljótur kom að framan og voru með honum sex menn. Þegar þeir sáu logann vildu sumir ganga á hann og svo gjörðu þeir. Komust þeir að honum nærri því og hefur Arnljótur sagt að loginn var á að geta rúmur ferhyrningsfaðmur fyrirferðar niður við jörðu, líkur kolaloga á lit, datt stundum niður, en gaus upp aftur fljótt og blossaði mikið. Stundum var hann lengi uppi, en stundum mjög stutta stund. Hann var á að geta fjögra álna hár. Ekki gat Arnljótur séð að hann væri bláleitur, eins og málmlogi á að vera. Þegar þeir komu rétt að loganum hvarf hann með öllu.