Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Manni varnað að ganga aftur

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Manni varnað að ganga aftur

Einhverju sinni voru tveir menn samferða í trippaleit. Var það á öndverðri jólaföstu. Voru snjóþyngsli mikil svo þeir bjuggust ekki við að ná til byggða með trippin fyr en í vökulok enda tók þar tunglskin við sem dag þraut. Um kvöldið varð þeim sundurorða og kom svo að annar heitaðist við hinn að ganga aftur og drepa hann; síðan datt hann dauður niður. Fór hinn þá að stumra yfir honum og ætlaði að færa líkið að byrgi á hól nokkrum skammt í burtu. En að vörmu spori gjörðist líkið svo þungt að hann kom því ekki úr stað; tók það að þrútna, blána og bólgna upp. Vildi hinn þá ekki bíða þess að hann næði að ganga aftur. Greip hann þá staf þann er hann hafði gengið við, braut stafinn sundur í miðju, lagði brotin í kross og batt ofan á brjóst líkinu. Hætti það þá að blása upp; Síðan komst hann til byggða um kvöldið. Daginn eftir fékk hann hesta og menn til að sækja líkið. Var það þá eins og þegar hann gekk frá því. Bjó hann líkið svo til jarðar að hann lagði trékross yfir það, en stakk nálum í iljar þess í kross svo það gat ekki gengið aftur.