Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Missagnir og viðaukar um Hleiðrargarðs-Skottu
Missagnir og viðaukar um Hleiðrargarðs-Skottu
Ár 1764 bjó Benidikt prestur Pálsson í MikIagarði[1] en í Árgerði bjó Sigurður Björnsson er síðar flutti í Hleiðrargarð; voru þeir prestur og Sigurður fjölkunnugir, en þó eigi mjög. Þeir voru fjandmenn miklir og fórust á mörgum sendingum og vann hvorugur á öðrum; varð Sigurður eitt sinn presti yfirsterkari og var prestur hætt kominn; undi hann við það illa, tókst því eitt sinn ferð á hendur í Hjarðarholt vestur að hitta Gunnar bróður sinn. Hann var manna fjölkunnugastur hér á landi er menn þekktu til á þeirri tíð. Segir Benidikt honum allt af viðskiptum þeirra Sigurðar Björnssonar og biður hann ásjá. Gunnar heitir góðu um það og eftir það reið Benidikt heim, en um vorið flutti Sigurður til Hleiðrargarðs því hann undi illa yfirgangi prests.
Um vorið kom einhver á glugga í Miklagarði og kallaði prest út. Prestur kemur út og sér hann konu standa fyrir dyrum. Hún spyr hann þegar hvað hún skuli gjöra. Hann mælir: „Far til Hleiðrargarðs og drep Sigurð Björnsson.“ Hún fer og hleypur allt til þess er hún kemur að Krýnastöðum og fer þar upp á glugga og biður húsbónda út ganga og finna sig. Þar bjó Hallur er kallaður hefur jafnan verið hinn sterki. Hann átti eitt sinn glímu við mann undan Jökli og sendi sá Halli draug, en Hallur vann drauginn og sendi aftur og varð draugurinn þeim manni að bana er hann hafði sent. Hallur spyr hver kominn sé. Það var mælt úti að sú heitir Sigríður Árnadóttir. Hallur kemur út og spyr hana að ætt og aldri og hvert hún ætli. Hún kvað síra Benidikt hafa sent sig Sigurði bónda á Hleiðrargarði, en Gunnar hafi vakið sig upp bróðir hans þremur nóttum síðar en hún andaðist; segir hún hann hafa prímsignt sig og gefið sér sakramenti áður hún fór að heiman. Hún kvaðst vera 25 ára, en kvað sér skapað að lifa 100 ár ef allt færi að sköpum. Hallur rak henni kinnhest svo að hún veltist út af á hlaðinu. Eftir það fór hún til Hleiðrargarðs og deyddi þar niðursetu eina, en Sigurður gat varizt henni. Eitt sinn var Sigurður í kaupstað að binda bagga, en varaðist eigi; hljóp þá Skotta fram á hann; Hallur bjargaði honum að bæn vina sinna. Sigurður varð sóttdauður.
Þegar Skotta kom vestan fór hún um hlaðið á Krýnastöðum og drepur þar á dyr. Þar bjó Hallur hinn sterki. Hann var maður mikill fyrir sér og fjölkunnugur mjög, en óvin mikill Sigurðar nábúa síns. Hallur kemur til dyra og kennir þegar að draugur er þar kominn og spyr hann að nafni og erindi. Hún nefnir sig og segir hvert hún skal fara og spyr hvert bær þessi er eigi Hleiðrargarður. Hallur kvað nei við og segir henni leið þangað og bað hana þó hafa menjar þess að hún hafði þar komið, þrífur tré eitt mikið í hönd sér og keyrir hana úr túninu út. Svo kvað Hallur síðar hafa sagt að eigi myndi Skotta lengra farið hafa hefði hann verið meiri vin Sigurðar.
Sumir segja að Sigurður bóndi kunni ekki fyrir sér, en er Skotta kom til Hleiðrargarðs gengur hún í bæinn inn og kallar upp á pallinn hvort Sigurður Bjarnarson er þar; var henni það sagt og vísað á niðursetudreng einn, er sumir segja að ætti samnefnt við búanda; drap Skotta hann þegar með þeim hætti er fyrr er ritað.
Jón hét maður er bjó úti í Kræklingahlíð; segja sumir að hann bæði sér til konu dóttur Sigurðar og héti að binda Skottu ef hann fengi þann ráðahag. Sigurður hét honum konunni, en Jón batt drauginn þar er Varmhagi heitir; segja menn og að Sigurður efndi eigi heit sín við Jón og leysti því Jón aftur Skottu. Aðrir segja að böndin muni sjálf hafa af henni raknað, en það er sumra sögn að hún sé enn bundin svo sem hún var í fyrstu er Jón eða Pétur bundu hana.
Í Varmhaga er sagt að voru tvö beitarhús; var annað frá Hálsi, en hitt frá Saurbæ. Hálfu voru sauðir fleiri í Saurbæ en á Hálsi. Hina fyrstu nótt er Skotta var bundin í Varmhaga er mælt að sauðir tveir dræpist í beitarhúsum frá Saurbæ úr veiki þeirri er nú er pest kölluð og hina aðra einn frá Hálsi og síðan svo jafnan til skipta þar til er allir voru dauðir sauðir á báðum bæjunum. Þetta er upphaf sýkinnar í Eyjafirði. Sumir segja að þetta væri eigi fyrr en hún [þ. e. Skotta] var laus orðin.
Svo er sagt að eitt sinn var smalakona ein frá Hálsi í fjárleit. Hún kom eigi heim að vanda; var þá farið að leita hennar og fannst hún loks uppi til fjalla; var hún þá öll blá og blóðug og þó með lífsmörkum; var hún frétt eftir hví hún var svo leikin. Hún kvað konu eina hafa leitt sig þangað og kreist sig svo. Hún lýsti konu þessari svo að allir vissu að kona þessi var Skotta. Síðan andaðist hún.
Það er sumra manna sögn að Sigurður héldi skýlu yfir sér svo að Skotta kenndi hann eigi eða einhver annarra vina hans. Eitthvert sinn var hann í kaupstað og kominn á leið heim aftur; nefndi einhver hann þá fullu nafni. Skotta var þar viðstödd og heyrði það. Stökk hún þá á hestinn fyrir aftan hann og braut hann á bak aftur. Segja sumir að Sigurður léti svo líf sitt.
Skotta er sagt að hafi orðið fjögra eða þriggja manna bani; var einn niðursetningurinn í Hleiðrargarði, annar Sigurður bóndi í Nesi, þriðja smalakonan á Hálsi. Margt hefur hún drepið fénaðar og flest kreist og kramið í sundur; fannst oft fé í húsum og högum er sáust á fingraför hennar. Hún drap og nautpening og hesta. Síðan er hún var bundin æpti hún svo ámáttlega er myrkva tók að hvorki þorðu menn né skepnur nær að koma. Jafnan var hún eins búin er menn sáu hana. Hún var svo hvöt á fæti að enginn þurfti við hana hlaup að þreyta, manna né hesta.
Enn er sagt að Skotta væri í för með Fnjóskadalsbola.[2] Hann er fleginn og húðin föst aftan og dregur hann hana. Sat Skotta oft á húðinni og dró boli allt saman.
Sagt er að hún fylgi Hleiðrargarðsætt og þykjast sumir sjá hana enn, en mjög kvað hún vera farin að dofna. Segja sumir að draugar magnist enn fyrsta þriðjung aldurs síns, standi í stað hinn annan og dofni hinn þriðja og deyi svo út er þeir hafi fyllt hundraðið (120?).
- ↑ [Varð prestur þar 1748, aðstoðarprestur í Hvammi í Hvammssveit 1764, dáinn á Stað 1813.]
- ↑ Sjá söguna um Þorgeirsbola; sbr. Fjölni, 9. ár, 16. bls.