Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Runkhúsa-Gunna

Einu sinni bjuggu hjón í Runkhúsum. Þau áttu son fullorðinn og allmannvænlegan. Hjá þeim var vinnukona er Guðrún hét og niðursetukerling. Ei er þar getið fleira fólks á bæ þessum.

Þess er getið að Guðrún vildi eiga bóndason, en foreldrum hans var það móti skapi. Eitt aðfangadagskveld fyrir jól kom bóndason inn frá fénaðargeymslu; talar hann til Guðrúnar og segir hún skuli koma fram á pallstokk til sín og hjálpa sér úr snjófötum. Guðrún kemur og tekur stóra hnífsveðju upp undir í baðstofunni; verkar síðan upp fötin og að því búnu bregður hún hnífnum á háls sér. Ei vissu þau gjörla hve mikill áverkinn var, en hún datt niður sem dauð væri og rann henni blóð mikið. Þegar lítil stund er frá liðin stendur Guðrún upp og stekkur ofan. Það þykjast þau vita hjónin að ei muni allt með felldu er Guðrún stóð upp aftur. Þykir þeim því ei ráð að bíða þar til hún kæmi inn aftur. Þau taka því það til bragðs að búa sig það hraðasta að þau geta til kirkju og ætlar sonur þeirra með þeim, en kellingin varð eftir að sitja því hún var ekki ferðafær; þótti þeim þó illt ef hún yrði fyrst fyrir afturgönguaðgjörðum Guðrúnar; en nú varð þó svo að vera. Samt létu þau ljós um allan bæ svo hvergi bar skugga á. Fóru þau svo með skunda slíkt er af tók og á kirkjustaðinn. Finna þau prest sinn og segja honum afgang Guðrúnar og orsök til þess er hún gjörði þetta, að því er þau vissu, og biðja þau hann ásjár, því eflaust muni Guðrún vitja sonar þeirra og það ekki með neinum góðvilja. Prestur fylgir þeim inn í hús inn úr baðstofu; setur hann þau þar á rúm, bóndason í miðið, en hjónin sitt við hvora hlið honum, en prestur var þar að ganga um gólf hjá þeim. Síðan fór að koma kirkjufólk til aftansöngs, en prestur sagðist ekki geta tekið til strax.

Nú er að segja frá kellingunni heima í Runkhúsum, að nokkru eftir að hjónin vóru komin af stað heyrir kelling umgang mikinn fram í bænum og því næst kemur Guðrún inn; sýndist kellingu hún æði gustmikil. Hún gekk að pallskörinni, gægist upp og segir: „Jólabál í Runkhúsum! Jólabál í Runkhúsum!“ Að svo mæltu fór hún fram; en ekki sakaði kellingu.

En á kirkjustaðnum bar það við að þegar þau voru búin að vera þar æði lengi, hjónin, heyrist úti á þekjunni upp yfir hjónunum hark mikið og þar næst brestur ógurlegur; kom þá inn um þekjuna feikistórt hellubjarg og stefndi á bóndason, en fyrir umsjá prests rann það fram yfir og á gólfið; sakaði þau ei. – Bregzt þá prestur við og fer ofan og er æði lengi burtu; kemur hann svo inn og segir nú muni vera óhætt að taka til embættisgjörðar. Fór svo fólk í kirkju og hjónin að því búnu heim að Runkhúsum. Varð ekki vart við Gunnu eftir það og endar svo þessa sögu.