Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Séra Sigurður á Auðkúlu
Séra Sigurður á Auðkúlu
Einu sinni flutti séra Sigurður messu á Svínavatni. Ætlaði hann að ríða heim um kvöldið, en hann kom ekki. Var hans leitað daginn eftir og fannst hann framan til í vatni því sem Svínavatn heitir og liggur á milli kirkjustaðarins Svínavatns, Auðkúlu og fleiri bæja. Séra Sigurður var þá dauður þegar hann fannst og allur sundur slitinn. Þar var og traðkur mikill. Sama dag og þetta varð sást það frá kirkjunni á Svínavatni að maður lá á vatninu og setti upp borðstóla, en því var enginn gaumur gefinn og enginn hafði fylgt presti um kvöldið, en dimmt var og lá leið hans um ísinn á vatninu. Þetta var um vetur í skammdeginu. Sáu menn það seinna að maður sá sem á ísnum hafði sézt hafði verið draugur og segja sumir að Borgfirðingar hefðu sent hann, en aðrir að Dalamenn hafi gjört það. En það ætla menn víst að hann hafi brugðið sér í nautslíki þegar hann réðst á prest. Þegar draugurinn fór burtu aftur kom hann við á bæ þeim sem Melbrekkudalur[1] heitir. Bóndi var að láta inn fé sitt þegar hann sá manninn og hafði hann tal af honum. Hann spurði hann um erindi sitt og ferðir. Draugsi sagði bónda upp alla sögn. Þá sagði hóndi honum að flýta sér og fara ofan í þann sem hefði sent hann. Og það gjörði draugsi.[2]