Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Sönnun fyrir vofum
Sönnun fyrir vofum
Teitur nokkur Ólafsson bóndi á Klukkufelli í Reykhólasveit varð bráðkvaddur úti fyrir rúmum 40 árum. Þá stóð unglingspiltur, sem enn lifir, yfir fé á Hríshólsflóa andspænis Klukkufelli. Sá hann sem dökkna á skaflinum hjá fjárhússdyrum á Klukkufelli og kindurnar vera að ganga fram og aftur. Kvenmann sá hann lúta ofan að dökknanum á skaflinum og fara síðan heim að bænum. Svo sá hann annan kvenmann fara frá Klukkufelli yfir að Hríshóli (eftir dauða Teits sótti hann mjög að ungmenni því er getið var í upphafi sögunnar) og svo fóru tveir menn yfrum með henni og sá smalamaður að þeir báru lík Teits í brekáni heim í smiðjukofa á Klukkufelli og þegar ungmennið kom heim að Hríshóli fékk hann allt að frétta um lát Teits. Þá var harðviðrasamt mjög; rak unglingspilturinn hesta hjá Klukkufelli í haga og varð samferða öðrum manni sem einnig rak hesta. Fýsti unglingspiltinn frá Hríshóli mjög að skoða lík Teits og gjörði það þrátt fyrir það þó samfylgdarmaður hans letti, og þuklaði á líkinu. Síðan var Teitur kistulagður og jarðsettur og leið vika þangað til unglingspilturinn á Hríshóli átti að láta inn hesta, og gengi hann ekki innan um húsið áður hestar voru inn látnir fór allt með feldi, en brygði hann af því létu hestarnir sem þeir væru hamstola með frýsi og fælni. En þegar hann rak féð þó glaða sólskin væri var hann spurður af fólkinu á hinum bæjunum hver fylgdi honum, en það var reyndar enginn maður, heldur svipur Teits. Þessu gekk allan veturinn; missti sveinninn svefn og matarlyst. Hann vann það á kvöldin að hann malaði korn og var hurð fyrir framan kvörnina. Gat hann malað tvær og þrjár kvarnir óttalaust; síðan kom óþefur mikill, en þegar honum létti kom í ungmennið megn hræðsla svo hann flúði upp á loft. Unglingur þessi átti fóstra sem vorkenndi honum og fór að aðgæta hvað valda mundi myrkfælni hans og sá hann þá svip Teits fyrir framan hurðina.
Eina nótt dreymdi unglinginn Teit brosleitan í bragði og þótti honum hann taka á fótleggjum sér og draga sig upp fyrir hné ofan í loftsgatið og þá varð hann vakinn. Þoldi unglingurinn ekki við fyrir fótaverk hálfan mánuð á eftir, en þegar búið var að gjöra að þessu tókst af atsókn Teits, en kona hans varð brjáluð upp frá því og lifði fjörutíu ár eftir mann sinn.