Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Saga af Grími Skeljungsbana
Saga af Grími Skeljungsbana
Á þeim bæ er Kot heitir í Norðurárdal sem liggur fram af Skagafirði, en fyrir vestan Öxnadalsheiði, bjó bóndi einn með konu sinni; þau áttu þann son er Grímur hét; hann var snemma efniligur og sterkur og gjörðist þegar á æskualdri mjög ódæll so að nábúar þóttust af hans skiptum illt bíða; oft var hann að leikum með öðrum bændasonum og báru þeir jafnan lægra hlut og hrakti hann þá; varð hann af slíku mjög óþokkaður. Á Silfrastöðum bjó bóndi einn auðigur að kvikfé, en sá marlaki var á um hans hagi að hönum varð illt til sauðamanns því þeir urðu oftliga bráðkvaddir og það mest af tröllagangi sem þar var í fjöllunum og skeði það oftast hvörja jólanótt að fjármaður þar hvarf; var þá so komið að enginn þorði þar að ganga undir fjárgeymslu.
Eitt sinn réð bóndi til vistar einn ókunnan mann er Skeljungur hét, hann var illilegur að sjá, stór og sterkur, ósvífinn í orðum og illmæltur. Þessi tókst á hendur fjárgeymsluna og gekk það greiðlega; leið so að jólum. Aðfangadagskveldið gekk Skeljungur heiman með illu geði til fjár og kom eigi heim aftur, var hans leitað og fannst hann dauður fram í hlíðinni og var þar dysjaður. Hann gekk síðan aftur og vitjaði húsa bónda og varð mikill reimleiki að (mjög líkt sem segir í Grettirs sögu af Glám). Áður nefndur Grímur frá Kotum kom eitt sinn til Silfrastaða, gisti þar um nótt og lagði sig í skála, var þá mjög eyddur bærinn að fólki af ásókn Skeljungs. Um nóttina kom draugurinn inn í skálann og þreif til Gríms þar hann lá, hann spratt upp í móti og tókust þeir á, færðu síðan leikinn út og fram með hlíðinni nokkuð frá bænum. Þar á hól einum fékk Grímur yfirunnið drauginn og drap hann, renndi síðan þrjár borur með spjóti því er hafði á stein þann er þar stóð á hólnum og batt þar við Skeljung dauðan. (Næsta er hvert hann ekki risti vað úr húðarslitri því er þeir höfðu togazt um til að binda hann með.)
Að því gjörðu gekk hann heim aftur til bæjarins, tók eld og eldsneyti, sneri so aftur til Skeljungs og brenndi hann þar upp til ösku, bar síðan öskuna fram í Norðurá (sem þá féll þar strax undir hólnum) í einn hyl árinnar og mælti svo um að þar í þeim hyl skyldi eigi fiskveiði bregðast sem lengi síðan viðhélzt þar í hylnum. Nú er Norðurá fallin lengra suður; enn sér þó farveg hennar. Steinninn sá er Skeljungur var við bundinn stendur enn í dag og er með sýnilegum þrem borum, næsta stór jarðfastur blágrýtissteinn, upphár, en eigi mjög þykkur; so er og þar fram frá í fjallshlíðinni hátt uppi undir klettunum einn hellirsskúti hvar Skeljungur hafði sín híbýli og kallast enn í dag Skeljungsskáli.
Eftir þetta varð eigi vart við reimleika og fékk Grímur hér fyrir góð laun af bónda. Faðir Gríms var járnsmiður, smíðaði fyrir bændur og var af því vel þokkaður. En vegna óspektar Gríms mátti hann þó víkja þaðan úr byggðinni og færði hann bústað sinn suður á fjöll þar sem kallast í Vinverjadölum, það er á Kjalvegi og liggur hér um tvær þingmannaleiðir úr Skagafirði og á alþingismannavegi; er þar vel grösugt. Þar byggði faðir Gríms sér bæ, bjó þar þó ei lengi og flutti sig aftur í Norðurárdal. (Úr minni er liðið hvort Grímur drap Skeljung fyrir eður eftir það hann var með föður sínum í Vinverjadölum). Grímur sigldi síðan og komst í þrautir miklar utanlands, frelsaði þar eina eða tvær konur úr tröllahöndum og varð frægur af því og öðru. Ekki mundi Guðmundur neitt að segja skýrlega af fleirum Gríms þrekvirkjum utanlands; so er úr minni fallið hvert hann sagði hann hafa aftur til Íslands komið eða eigi.
Söguna sagðist hann hafa heyrt lesna[1] þá hann var ungur piltur með móður sinni.
- ↑ Það mun misminni verið hafa eða missögn, hann mun hafa heyrt þetta so sagt, skrifuð mun þessi relation [frásaga] aldrei verið hafa. [Árni Magnússon.]