Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Sels-Móri eða Þorgarður

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Sels-Móri eða Þorgarður

Það eru drög til þessarar sögu þó mörgum fari hér um missögnum að hjón nokkur bjuggu á Bústöðum fyrir framan Hellirár.[1] Hjá þeim var vinnumaður sem Þorgarður hét. Var það haft í flimti að konan héldi við hann fram hjá manni sínum. Einnig þótti örla á því að bóndi yrði að lúta í lægra haldi en vinnumaðurinn fyrir konunni; því gekk bóndi oft að óvaldari verkum og var úti í illviðrum er Þorgarður sat heima.

Eitt af því var það að bóndi stóð allajafna sjálfur yfir sé sínu á vetrum er nokkuð var að veðri, og eitt vetrarkvöld í byl kom bóndi ekki heim né nóttina eftir, en hann hafði farið til fjárins morguninn fyrir og ætlað að standa yfir því um daginn. Morguninn eftir var farið að leita hans og fannst hann þá í Helliránum með áverka af manna völdum er menn ætluðu að hefði dregið hann til dauða. Þorgarður var grunaður um þetta af orði því sem á honum lá og konu bóndans og því er sagt að málið hafi verið prófað. Fór þá svo að allar líkur bárust á Þorgarð þótt hann synjaði þverlega fyrir að hann hefði valdið dauða húsbónda síns og var honum því dæmt eftir því sem sagan segir, annaðhvort líflát (sumir segja henging) eða fébætur og skyldi hann mega leysa líf sitt með ærnu gjaldi. En hér fór sem vant er að flestir kjósa fyrðar líf og því vildi Þorgarður bjarga sem lengst.

Í þann tíma bjó sá maður á Seli á Seltjarnarnesi sem Jón hét; hann var orðlagður ríkismaður. Þorgarður fer þá til Jóns og biður hann í allra krafta nafni að leysa nú líf sitt. Jón var fyrst heldur tregur til þess. En af því Þorgarður lagði mjög að honum og hét að þjóna honum og niðjum hans af trú og dyggð meðan sér ynnist orka og aldur til gekkst Jóni svo hugur við vandræðum hans og bænum að hann lét til leiðast og fór að telja lausnargjaldið fram á borðið, en Þorgarður stóð yfir honum á meðan. Þegar Jón var langt kominn að telja peningana kom Guðrún kona hans inn í stofuna og spyr hvað hann vilji með allt þetta fé. Jón segist ætla að leysa með því líf mannsins sem þar standi. Hún bað hann ekki gjöra þá glópsku því það eitt mannkaup mundi í Þorgarði að hann væri ekki sparandi frá hengingu. Í því tekur húsfreyja upp bæði svuntuhorn sín að neðan, gengur að borðinu og sópar með annari hendinni öllum peningunum þar ofan í, en heldur upp svuntuhornunum með hinni. Jóni bónda féllust bæði orðtök og hendur við þessar aðfarir konu sinnar. En hún segir í því hún ætlar að ganga út með peningana í svuntunni og lítur til Þorgarðar: „Líði hver fyrir sínar gjörðir.“ Þorgarður segir: „Ekki mun hér skilið með okkur; [því ekki er það meira en fyrir mig að sjá svo um að kveðja mín fylgi ykkur hjónum og ætt ykkar í níunda lið.“[2] Síðan fór Þorgarður burtu og var tekinn af. En tvímæli eru á því hvort það hafi heldur verið gjört hér í landi eða ytra; þó er það helzt á orði að hann hafi verið hengdur í Kópavogi og gengi hann þegar aftur og sækti að Selshjónunum, en einkum að Guðrúnu konu Jóns eins og hann hafði heitazt um; kom þá bæði rænuleysi og óráð yfir Guðrúnu.

Af því draugur þessi var um langa tíma viðloðandi á Seli var hann kallaður Sels-Móri, en Þorgarður alltaf annað veifið og því nafni heldur hann enn af því maðurinn hét svo. Þau Selshjón áttu dóttur eina er Þorgerður hét; hennar fékk Halldór Bjarnason merkisbóndi í Skildinganesi og með henni bæði auðinn allan þeirra Selshjóna að þeim látnum og ættarfylgjuna, Þorgarð eða Móra, þó litlar sögur fari af honum bæði í tíð þeirra Skildinganeshjóna og eins á meðan Bjarni sonur þeirra var á uppréttum fótum í Sviðholti; því Bjarni var hinn mesti forkur. Mun hann vera einn þeirra lögréttumanna sem Magnús lögmaður Ólafsson útnefndi seinast á alþingi við Öxará 1798 og bjó Bjarni þá á Hliði á Álftanesi. Eftir það var Bjarni skóla-oeconomus þegar skólinn var fluttur að Bessastöðum, en bjó þó lengst í Sviðholti, og var sannnefndur héraðshöfðingi á Álftanesi. Þótt nú Móri gerði ekki mikið fyrir sér hvorki í Skildinganesi hjá Halldóri né í Sviðholti meðan Bjarni sat uppi var hann þar þó helzt viðloða og langa tíma eftir það meðan niðjar Bjarna bjuggu þar, og því var hann stundum kallaður Sviðholtsdraugur, en þó miklu oftar eiginnafni sínu, Þorgarður.

Bjarni í Sviðholti átti mörg börn og mannvæn sem kunnugt er og þótti fremur örla á því að Móri glettist við þau og jafnvel niðja þeirra sem nú lifa. Önnur dóttir Bjarna sem Þuríður hét giftist Benedikt stúdent Björnssyni frá Hítardal sem lengi hefur verið prestur í Fagranesi. Hún var mesta skýrleikskona, en það mótlæti sótti á hana að hún varð hálfbrjáluð og stundum óð með öllu. Út úr því skildi hún við mann sinn og tók Ragnheiður systir hennar hana þá að sér, kona Jóns Jónssonar skólakennara á Bessastöðum, og eftir það fyrri kona Bjarnar Gunnlaugssonar yfirkennara í Reykjavík. Hjá henni mun Þuríður hafa dáið. Eitt með öðru er það haft eftir Þuríði í óráðsköstunum að hún hafi átt að segja: „Systir mín, það er naðra að stinga mig,“ en aðrir segja: „Hún Ingibjörg er alltaf að stinga mig með skónál í hjartað.“ Ætla menn að hún hafi átt við Ingibjörgu dóttur Jóns á Álftanesi sem var hjá þeim hjónum Benedikt og Þuríði áður en þau skildu, en varð síðan seinni kona séra Benedikts svo að Þuríður hafi þar ef til vill haft ráð með óráði. Ættarfylgju Þuríðar var kennt um þenna veikleika hennar sem þó hefur ekki borið á til muna síðan í ættinni, en stórlynt þykir það fólk sumt og ekki allt við alþýðuskap. Engar sögur hef ég heyrt um það að Þorgarður hafi átt að ásækja húsfrú Ragnheiði Bjarnadóttur sem fyrr er nefnd, en sagt er að það hafi verið í mæli á Suðurlandi að bæði hafi hann átt að vera þess ollandi að póstskipið týndist 1817 af því fyrri maður hennar sigldi með því og fórst með því undir Jökli og eins hafi hann ollað dauða Þórðar heitins Bjarnasonar í Sviðholti; enn er það og í mæli að hann eigi að fylgja börnum Ragnheiðar, einkum Bjarna rektor, og hafa sumir þótt verða varir við það að svo væri.

Þess skal hér getið um leið að Bjarni Halldórsson í Sviðholti átti systur þá sem Jórunn hét, hún var svarri mikill og skrautkona. Sagt er að maður nokkur á Álftanesi hafi beðið hennar. En henni þótti sá ráðahagur fyrir neðan sig að eiga hann og veitti honum því afsvar. Þá er sagt að hann hafi heitið því fyrir sér þegar Jórunn aftók við hann um eiginorð að hann skyldi eigi að síður loða við ætt hennar þó sér væri fyrirmunað að komast í hana á þann hátt sem hann vildi. Eftir það giftist Jórunn Eyjólfi stúdent Jónssyni sem þá var í Sviðholti, en flutti sig seinna að Skógtjörn á Álftanesi og þótti þar merkismaður í sveit. Þau Eyjólfur áttu eina dóttur barna; hún hét Þorgerður eftir ömmu sinni. Ekki höfðu þau Eyjólfur verið lengi saman þegar þess varð vart að Jórunn hafði geðbrest nokkurn sem fór því meir í vöxt þess lengur sem leið, og þar kom um síðir að hún varð brjáluð með öllu. Þóttu þar hafa fram komið heitingar biðilsins sem áður var getið.

Þegar Þorgerður Eyjólfsdóttir var orðin gjafvaxta beiddi hennar og fékk Eggert Bjarnason sem um það leyti mun hafa orðið prestur að Snæfoksstöðum (Klausturhólum) í Grímsnesi. Fór hún svo austur með honum og áttu þau börn saman. Liðu nú svo fram tímar til þess Jórunn móðir Þorgerðar andaðist; hafði hún aldrei orðið heil á geðsmunum frá því sú tyrming kom yfir hana eftir að hún giftist. En ekkert hafði vottað til þeirrar veiki á Þorgerði meðan móðir hennar lifði enda hafði hún aldrei suður komið frá því hún fór austur, og er það sagt að séra Eggert hafi verið varaður við því að láta hana fara suður og aldrei koma út fyrir Sog eða Álftavatn og mundi hana þá ekki saka. En þegar Jórunn á Skógtjörn dó er mælt að Þorgerður hafi beðið mann sinn að lofa sér nú suður með honum og hafi hann færzt undan því í fyrstu, en þó látið til leiðast þegar hún lagði meir að honum. Segir svo ekki af ferðum þeirra hjóna fyrr en þau voru komin suður yfir Hellisheiði, suður í Fóelluvötn fyrir ofan Helliskot; þar er sagt að hafi svifið að henni og hafi hún aldrei orðið jafngóð síðan. Ætla menn að fylgidraugur móður hennar eða Þorgarður sem nokkrir hyggja[3] hafi hitt hana þar fyrst og ásótt hana þaðan [af] meðan hún lifði, en það var ekki mjög lengi eftir það. Börn þeirra séra Eggerts og Þorgerðar hafa sum þótt auðnulítil og tvær af dætrum þeirra orðið brjálaðar.

  1. Það mun vera latmæli fyrir Elliðaá eða Elliðaár, sjá Landnámu, Ísl. s. I, 228.
  2. Þrennum sögnum fer um svör Þorgarðs frá [. Sumir segja að hann hafi sagt: „því aftur mun ég ganga og fylgja ykkur og ætt ykkar, körlum í sjöunda lið, en konum í níunda, þar sem ég á ógæfu mína fremur upp á konu en karl“. En aðrir segja svo frá orðum hans „því fylgja mun ég afsprengi ykkar og þó ávallt verri í kvenlegginn“.
  3. Víst er um það að nokkrir kalla þenna draug sem átti að hafa grandað húsfrú Þorgerði í Vötnunum einnig Sviðholtsdraug.