Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Sending Vigfúsar prests

Þegar Vigfús[1] prestur var á Skinnastöðum var það einu sinni að hann átti í illu við bóndann á Hafrafellstungu. Með það sendi prestur honum draug eina nótt, en draugsi komst ekki í bæinn og var svo að slarka þar úti um nóttina og drap nokkuð af fé, víst einn hest og sex ær eða fleiri. En um morguninn fór bóndi snemma á fætur að finna draugsa og svo fylgdi hann honum til baka aftur ofan í Skinnastaði og inn í baðstofu. Prestur og þau hjónin vóru í rekkju sinni. Hleypti bóndi draugnum þá á prest, en prestur átti barn þar í vöggu, og af því flestir kjósa fyrðar líf vísaði hann draugnum á barnið og forðaði sjálfum sér þannig, og er sagt að prestur hafi ekki gjört eftir það á hluta bónda.

  1. Vigfús Björnsson (d. 1808), síðast í Garði í Kelduhverfi, var prestur á Skinnastöðum 1775-1797, aðstoðarprestur þar 1773-1775.