Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Sendingin og Jón í Næfurholti
Sendingin og Jón í Næfurholti
Jón Brandsson hét maður; hann átti sauðfé margt og var góður og gildur bóndi. Hann var einhvur hinn karskasti maður og svo fóthvatur að skjótt hljóp hann uppi fráfærulömb. Hann bjó í Næfurholti á Rangárvöllum. Næfurholt er næst afrétt og mjög nærri Heklu. Eitt sinn mælti Jón það svo margir menn heyrðu: „Hekla gýs ekki meðan ég lifi.“ Varð og raun á því. Mæltu það og sumir menn að Jón vissi jafnlangt nefi sínu.
Jón var fjallkóngur á Landmannaafrétti mörg haust; hann var vel kunnugur þeim afrétti. Gekk hann oft einn eftir öll haustsöfn inn um afrétti og víðar um óbyggðir og kom með kindur. Sagði hann þá stundum er hann kom heim: „Nú held ég sé sauðlaust á Landmannaafrétti,“ en stundum sagðist hann ekki forsvara að kindur væri eftir þar eða þar sem hann til nefndi. Fór hann þá stundum þangað ef veður leyfði og fann oftast kindur. Gjörði hann og jafnan eigendum greið og góð skil [á] fénu.
Eitt haust var Jóni vant lamba, þriggja gimbra grákollóttra. Leið svo veturinn. Sumarið næsta fór hann eins og vant var um lestatímann kaupstaðarferð suður í Reykjavík. Þar var þá líka kominn með mörgum fleirum bóndi nokkur austan úr Skaftafellssýslu, Eyjólfur í Skál. Sólskin og hiti var um daginn og mælti Jón: „Fagurt veður og heitt á grákollunum mínum í Skál.“ (Skál kallast líka dalur sunnan í Loðmund á Landmannaafrétti). Þetta heyrði Eyjólfur bóndi í Skál; brást hann þegar reiður við og mælti: „Þú skensar mig fyrir það ég hafi stolið þeim. Ég skal reyna að launa þér.“ Jón lét sér fátt um finnast og gaf sig ekki að. Leið nú af sumarið.
Á jólaföstu um veturinn næsta gekk Jón erinda sinna fram að Haukadal; það er dálítil bæjarleið frá Næfurholti. Gekk hann aftur heimleiðis frá Haukadal er myrkt var orðið. Skammt eitt fyrir innan túnið í Haukadal stendur við götuna klettur nokkur kallaður Stóristeinn. Rétt í því bili er Jón gekk fram hjá steininum heyrir hann gaul illilegt og ámátlegt og í sama vetfangi hleypur að honum stelpa er svaraði á vöxt sextán vetra stelpu, með kollótta húfu og flaksaði hempunni; var að finna af henni hina andstyggilegustu fýlu. Jón hafði stafprik lítið með stuttum broddi. Lét hann nú prikið ganga með fylgi í stelpuna, en hún gaulaði við og lét sem hún vildi ráðast á hann, en treystist valla til þess. Hleypur Jón sem hvatlegast, en stelpan eltir hann og gaulaði jafnan er hún kenndi broddsins. Þessi viðureign hélzt svo hann hafði nóg að verjast áhlaupi hennar unz þau komu að læk þeim er Breiðholtslækur heitir; skildi þar með þeim. Sagðist Jón ekki muna eftir hvar eða hvurnig hann hefði komizt yfir lækinn, en kvaðst helzt hafa óttazt fyrir ef þar hitti á lækinn er hann var ófær yfir að komast, sem hann sumstaðar er. Gengur Jón nú heim, en er hann kemur í baðstofu féll hann í ómegin er hann sá ljósið. Var hann þá lagður í rúm sitt og tók bráðum að rakna við, en var þá orðinn svo fársjúkur að fólkið hugsaði hann mundi strax deyja. Var hann þjónustaður daginn eftir. Tók honum upp frá því að létta, lá viku og varð síðan albata. Aldrei varð Jón framar var við stelpuna, en viss þóktist hann um að Eyjólfur í Skál hefði sent hana í þeim tilgangi að ætla henni að verða sér að bana.