Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Sigurlaug og Herdís

Svo byrjar þetta ævintýri að þegar síra Vigfús Reykdal var prestur í Hvammi í nyrðri Laxárdal[1] var hjá hönum ein vinnukona er Sigurlaug hét. Var hún Guðmundsdóttir, ættuð vestan úr Miðfirði í föðurkyn, en móðurætt hennar af Skaga. Hét móðir hennar Ingibjörg Guðmundsdóttir frá Ásbúðum. Var það eitt sumar að Sigurlaug sat yfir búsmala prests eftir að búið var að færa frá. Var það einn dag í sólskini og góðu veðri er hún sat yfir að hún var að gjöra skó að henni sýndist manneskja koma að sér; var hún hjúpfærð, en þó með gulbjart hár ofan á herðar. Þóttist hún sjá það mundi vera vofa eður hún myndi vera dauð, og varð mjög hrædd. Þetta var að sjá unglingsstúlka. Gengur hún að Sigurlaugu og heilsar henni blíðlega, bað hana að verða ekki hrædda því hún skyldi ekkert illt gjöra henni. Spurði Sigurlaug hvör hún væri, en hún kvaðst Herdís heita og vera fjórtán ára gömul stúlka og hafa átt heima í Neðranesi og dáið þar. Kvaðst hún nú eiga heima í kirkjugarðinum í Ketu og liggja til fóta Margrétar Hallgrímsdóttir frá Selnesi; var hún kona Björns Arngrímssonar sem þá var á Selnesi, en þá dauð fyrir mörgum árum. Var Björn giftur aftur og átti Ingibjörgu sem nú lifir og er á Selnesi og mjög gömul og hrum, en Björn er dauður. Var þessi Margrét systir Arngríms sem var á Gauksstöðum. Sagðist Herdís hafa misst bein, væri það ofurlítil kjúka og lægi á brautinni frá kirkjugarðshliðinu og að bæjardyrunum, „hefur hún slæðzt í burtu þegar móðir þín sópaði kirkjugarðinn með [sófli] og þar liggur hún,“ segir Herdís, „en af því móðir þín er hjartveik, þá vil ég ekki vitja hennar; þess vegna vitja ég þín af því þú ert ekki eins veik fyrir og líka ertu yngri. Því bið ég þig nú að gjöra svo vel fyrir mig og fara á sunnudaginn kemur út að Ketukirkju þegar prestur messar þar, og taka beinið og láta í leiðið mitt til fóta Margrétar því ég vil ekki að það sé á flækingi. Þú skalt ekkert hafa illt af því ef þú hefur ráð mín og bregður hvörgi af. Bið ég þig að segja þetta engum nema ef þú getur ekki dulizt, þá máttu segja það prestinum, en engum öðrum. Nú ef þú bregður ekki af ráðum mínum, heldur gjörir eins og ég segi þér þá hefur þú lán af því, en annars fer illa.“ Eftir það hverfur hún, en Sigurlaug fer heim um kvöldið og var þá mjög hrædd og undarleg. Hafði hún þá misst af kindunum. Var hún þá spurð að orsökum og var hún mjög fálát. Sonur Vigfúsa prests hét Eiríkur; veit ég ekki betur en hann lifi enn og fór hann suður í Borgarfjarðarsýslu. Sagði hún Eiríki alla söguna sem gerst og kvaðst mjög hrædd, en Eiríkur gjörði spott að því og kvað það hégóma einn og vitleysu. Kom hann Sigurlaugu líka á þá trú svo þetta nærfellt komst í hámæli. Reið prestur næsta sunnudag út eftir og messaði í Ketu og fór ekki Sigurlaug til kirkjunnar. Liðu svo tímar.

Eitt sinn í góðu veðri þegar Sigurlaug var hjá fé sínu kom Herdís til hennar og var þá nokkuð reiðugleg og var auðséð að lá illa á henni. Hún mælti við Sigurlaugu: „Illa gjörðir þú að opinbera það öðrum sem þú vissir að leynt átti að vera og ég bað fyrir að þú segðir engum og allra sízt gárungum. Get ég nú ekki við gjört þó þú hafir nú nokkuð illt af lausmælgi þinni, en fyrst að svo er komið að þú gerðir nú ekkert af því sem ég bað þig, þó betur hefði verið að þú hefðir það gjört, þá bið ég þig samt að fara út að Ketukirkju þessu næst þegar messað verður þar, og takir bein mitt, látir í leiðið og gerir sem minnst úr öllu saman þó nú sé orðið um seinan.“ Síðan hvarf hún, en Sigurlaug fór heim með felmtri miklum og sagði presti og Eiríki. Líður nú nokkur tími þar til Reykdal presti ber að messa í Ketu. Leyfði hann þá Sigurlaugu að fara og kvað ekki annað vogandi. Fór þá Sigurlaug til kirkju með presti og messaði hann. Um prédikunina gengur Sigurlaug út, en þegar hún kemur í sálarhlið sér hún Herdísi; kemur hún og bendir henni að taka beinið, en Sigurlaug verður svo hrædd að hún veit ekki hvörnin hún á að láta. Vildi hún inn í kirkjuna aftur, en Herdís varði og ógnaði henni enn meir þar til hún tók beinið og lét í leiðið. Hvarf þá Herdís, en Sigurlaug gekk í kirkju mjög hrædd. Eftir messu fer fólk heim. Situr Sigurlaug enn hjá um sumarið. Var það mjög í flimtingum haft af Eiríki og öðrum gárungum sem til vissu, og ekki trútt um hún henti ekki sjálf gaman að þessu þegar frá leið.

Var það nú einn dag þá Sigurlaug var ein hjá kindum sínum að Herdís kemur til hennar mjög reiðugleg og ógnaði henni, en Sigurlaug sagði frá, og kvað henni illa fara. Átaldi hún hana mjög fyrir lausmælgi sína. Fór svo um síðir að Sigurlaug varð hálfgalin og fór Herdís að fylgja henni. Varð svo um tíma þar til vorið eftir að hún fór frá Hvammi og að Gauksstöðum á Skaga; var hún þar nokkur ár og eignaðist Jón Gunnlaugsson frá Gauksstöðum; var hann sonur Gunnlaugs bónda þar. Reistu þau bú á Kleif og voru þar nokkur ár. Síðan fluttu þau að Ketu og þar dó Jón Gunnlaugsson af blóðnösum og Jón sonur þeirra barn að aldri.

  1. Vigfús Reykdal (1783-1862) var prestur í Hvammi í Laxárdal 1814-1827.