Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Sjö draugar

Einu sinni voru sjö galdramenn mjög fjölkunnugir; þeir áttu heima vestur undir Jökli og vóru allir sem í einum anda. Þá bjó Arnór galdramaður á Sandi í Aðaldal í Þingeyjarsýslu. Eitt sinn vóru fyrrnefndir galdramenn í veizlu. Kom þar til umræðu að hvurgi mundu hér á landi slíkir kunnáttumenn í þeirri grein og þeir vóru. Mæltu þá aðrir í móti og sögðu að Arnór á Sandi mundi þeim jafn, ef ekki fremri. Varð um þetta þref nokkurt.

Nú víkur hér frá sögunni og segir frá að nærri þessum tíma fór maður nokkur úr Þingeyjarsýslu; ætlaði hann vestur á land, en þegar hann fór yfir Yxnadalsheiði var veður skuggalegt með drífu. Heyrist honum þá í dimmunni eins og menn færi hjá sér og það nokkrir saman. Hann segir: „Er nokkur þar?“ Þá er svarað með óviðfelldri röddu: „Það eru við.“ „Hvurjir þið?“ sagði maðurinn. „Við heitum allir það sama,“ var svarað. „Hvað heiti þið þá?“ sagði maðurinn. „Við heitum allir sjö draugar,“ var svarað. Maðurinn spurði: „Hvurt ætli þið að halda?“ „Við erum sendir að drepa Arnór á Sandi,“ var svarað. Maðurinn sagði: „Það er líkast að ykkur jafnmörgum veiti það hægt. En gaman þætti mér ef leiðir okkar lægju saman þegar ég og þið förum til baka aftur að þið gerðu svo vel og segðu mér hvernig ferðin gengur,“ og var því játað. Hélt hann svo leið sína.

En nú [er] að segja frá Arnóri. Hann hafði þann sið að á kvöldin þegar hann kom inn frá útiverkum lét hann ætíð kveikja ljós og leysa af sér skó. En þetta sama kveld er maðurinn og draugarnir áttu tal saman á Yxnadalsheiði og fyrr er frá sagt, hefur Arnór þau vanabrigði að hann hvurki vill láta leysa af sér eða kveikja ljós. Hélt því fólkið að hann mundi eiga gesta von. En nær dagsetri er barið og fer Arnór til dyra og sagði það mundi vera einhver er sig vildi finna, en að nokkurri stund liðinni kom Arnór inn aftur og sagði að nú mundi vera óhætt að kveikja og leysa af sér.

Nú víkur sögunni aftur til fyrrnefnds ferðamanns að þegar hann fer yfir Yxnadalsheiði til baka aftur var líkt veður og þegar hann fór vestur. Honum finnst þá hann heyra skammt frá sér aðgang mikinn, líkt og margir menn gengju í þyrping og færu aftur á bak og út á hlið og alla vega; þar með fylgdu rembingar miklar og tos með margs kyns skrípalátum. Maðurinn spyr hvurjir þar fari. „Það erum við,“ var svarað. „Hvurjir þið?“ sagði maðurinn. „Við heitum allir það sama,“ var svarað. „Hvað heiti þið þá?“ segir maðurinn. „Við heitum allir sjö draugar,“ var svarað. „Á, eru það þið!?“ sagði maðurinn, „en hvurnig gekk ykkur erindið við hann Arnór?“ „Illa,“ segja þeir, „því hann er sá versti maður sem til er. Þegar við kómum byrgði hann okkur inn í hesthúsi og þar máttum við sitja innibyrgðir í viku; en þann tíma lét hann allt heimafólk sitt skíta á einn botnhlemm úr kvarteli og þegar hann sleppti okkur loksins út fékk hann okkur hlemminn með öllum skítnum á og sagði: „Þennan hlemm eigi þið að fara með vestur og skulu þeir er þið eru frá sendir taka í nefið það sem á honum er. Þið verði að bera hann allir og ekki láta eitt korn slæðast.“ Þetta þykir okkur örðugt að uppfylla og óþokkalegt með að fara.“ Síðan þagna þeir, en maðurinn hélt leið sína og sakaði ekki. – En það er sagt að þegar draugarnir kómu vestur og galdramennirnir höfðu tekið í nefið það er á hlemmnum var þá drápust þeir allir – og lýkur svo þessari frásögu.