Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Skólakennarinn í Skálholti

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Skólakennarinn í Skálholti

Þegar séra Vigfús sem var prestur í Aðalvík var að læra í Skálholti hafði það verið venja hans og tveggja annara skólapilta að lesa á kvöldin út á kirkjulofti. Var það einn veturinn sem hann var þar að einn skólakennarinn sálaðist. Eitt kvöldið á meðan hann stóð uppi voru þeir að lesa út á kirkjulofti. Heyra þeir þá eitthvert brak niðrí kirkjunni svo þeir fara að verða smeykir. Þegar þetta hafði gengið æðistund dregur bláan bug í kringum ljósið svo það deyr. Þeir vita nú ekki hvað þeir eiga til bragðs að taka þangað til þeir ráða það af að senda einn eftir vaxljósi. Fer hann inn um undirgöng sem lágu úr bænum og út í kirkjuna. Var það vani yfirfólksins í Skálholti að fara þar út í kirkjuna á vetrinn. Meðan hann er inni verða svo mikil brögð að háreystinni niðri að hinir ráða það af að fara ofan og vita hvað um er að vera. Finna þeir þá að kistan er farin að ganga af göflunum. Setjast þeir sinn á hvorn enda á kistunni og bíða þar þangað til hinn kom með ljósið; en karl er að brjótast um á meðan. Þegar skólapilturinn kom með ljósið fóru þeir að stinga nálum í iljar honum; gengu síðan rammlega frá kistunni og gjörði karl svo ekkert vart við sig eftir það.