Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Snæfjalladraugurinn (1)
Snæfjalladraugurinn
Jón hét prestur og var Þorleifsson. Hann bjó á Stað á Snæfjöllum og var þar prestur orðinn árið 1588 og víst til 1615. Þótti hann margfróður sem margir aðrir er vel þóttu að sér á þeim dögum. Jón prestur var og harðgjör kallaður. Hann var tvígiftur; hét Sesselja fyrri kona hans. Þrjú eru talin börn þeirra Jóns prests og Sesselju, og hét Jón einn sem heima var með föður sínum og svo stjúpu er faðir hans gat ekki börn við. Bar svo til að Jón prestsson lagðist á hugi við griðkonu eina sem var hjá presti. Vinnumaður einn var líka í tygi við hana, samdi Jóni og vinnumanni illa eins og oft er þegar svo við ber. Þetta var smali prestsins; fór hann þá sem oftar að fé einn dag snemma veturs, en gat ekki náð fjárhóp úr fjallshlíðinni fyrir hálku og harðfenni; kom hann heim og sagði frá vandræðum þeim er hann var í. Þótti presti honum farast löðurmannlega að skilja svo við og skipaði Jóni syni sínum að fara, en hann tók því dræmt því hann sagði það mundi vera ófært, en prestur vildi ekki heyra það og varð Jón að fara á stað þótt hann færi nauðugur, en aldrei kom hann aftur, heldur hrapaði til bana í þessari ferð; en ekki er þess getið hvort lík hans fannst eða ekki, en þegar þótti hann ekki liggja kyrr og sótti hann mest að vinnukonunni og smalanum; er þess getið í árbókum að mikill draugagangur væri vestra. Brátt varð draugur þessi mesta meinvættur; hélt hann sig löngum á hlíðinni á Snæfjöllum og gerði ferðamönnum illar glettingar með grjótkasti og ýmsum árásum. Sagt var og að hann gengi ljósum logum heima á Snæfjöllum, bryti glugga og dræpi fénað föður síns og að hann sæti oft um daga í baðstofu þegar konur væru við ullarvinnu og jafnan yrði að skammta honum á kvöldum mat sem öðru heimafólki.
Einu sinni heyrði vinnumaður prests að fiskur var rifinn úr roðinu niður í hjöllum og þegar hann heyrði að fiskinum var kastað og hann hugði betur að og sá hver var mælti hann: „Viltu ekki hníf, lagsmaður?“ Draugurinn svaraði: „Dauðir þurfa ekki hníf; þeir standa á og rífa.“ Það var einnig sagt að hann oft sleikti aska innan á Snæfjöllum, en engum gerði hann mein þeim sem gáfu honum af mat sínum, en grýtti að hinum.
Það var einn vetur að tóbak skorti vestra; þá tók Jón prestur það ráð, því sagt var að hann gæti sent drauginn hvert sem hann vildi, að hann skipaði honum að fara norður til Eyjafjarðar því hann vissi að tóbak var til á Akureyri, en fá varð hann honum nesti nóg. Er þá sagt þegar hann kom að norðan að maður einn sá hvar hann sat og var að éta, en tóbak æði mikið lá umhverfis hann; maðurinn mælti: „Gefðu mér, maður góður, hver sem þú ert, að bragða tóbak.“ Draugurinn rak upp glyrnurnar heldur ófrýnilega, sveiflaði saman öllu tóbakinu og hvarf þegar, en tvær álnir af munntóbaki lágu eftir þar sem draugurinn hafði setið.
Nú tók Jón prestur það ráð að hann ritaði seðil og bauð draugnum að flytja hann austur að Skorrastað í Norðfirði; bjó þar prestur sá er Einar hét Sigurðsson, og segja sumir að þeir Jón prestur hefðu verið skólabræður og treysti hann honum einum að fyrirkoma ófögnuði þessum. Draugur kom austur og að rúmi prests þegar hann var háttaður. Prestur sá hann og spyr hvort hann væri kominn að finna sig; játaði hann því. Ekki leizt presti gestur þessi sællegur. Þegar Vildi hann ofan á prest, en hann greip rúmfjölina og sló á handlegg honum svo sundur gekk, kastaði hann í því seðlinum til prests; fór nú prestur þegar á fætur og bauð draugnum að fara vestur; en allt kvaðst hann heldur vilja vinna. Prestur lézt mundi ráð til finna svo dygði og bauð honum að koma að Stað að lokinni messu og gæta þess að mæta Jóni presti í sáluhliði og afhenda honum seðil sem hann þegar fékk honum. Varð draugur þá nauðugur að fara, og eins og fyrir hann var lagt mætti hann presti í hliðinu og afhenti seðilinn, en það var draugastefna og stefndi Jón prestur þegar Snæfjalladraugnum um afturgönguna frá öllum lifandi mönnum og skepnum norður og niður í níunda heim, og fylgdi þeirri stefnu svo mikill máttur að draugurinn varð þegar að hverfa niður; er talið að hann yrði ekki að meini síðan.
Nú er sagt að kerling ein vestra sem sumir nefna Gunnu í Arnarfirði öfundaði kunnáttu Einars prests og vildi reyna sig við hann. En Galdra-Leifi réði kerlingu frá að glettast við Einar prest, þó ekki hefði hún það að heilræði; en það er sagt að eitt kvöld á Skorrastað væri barið að dyrum, skipaði prestur dóttur sinni til dyra; fór hún, en sá engan; var enn barið og fór svo þrisvar að hún fór til dyra, en sá engan; fjórða sinn fór hún út og sá mann á húsabaki, sá kvaðst vilja finna prest; bað hún hann þá inn ganga; en sagt er að prestur varaði hana við að ganga ekki inn á undan honum og færi hún því milli hurðar og veggjar. Ljós var í baðstofunni, en prestur sat við borð og skrifaði; er þá sagt að prestur spyrði hann erinda. „Kyrkja prestinn á Skorrastað.“ umlaði í honum, því þegar tók hann að dofna þegar hann sá prest; er þá sagt að prestur hefði ekki annað fyrir en hann legði hann upp í loft í rúm og særði frá honum andann og væri það undir dag að kerling dæi jafnsnemma vestra því prestur beindi henni það aftur er hún sendi honum.