Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Stúlkan í Álftamýrarsókn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Stúlkan í Álftamýrarsókn

Á einum bæ í Álftamýrarsókn vestra voru fyrir fáum árum systkin þrjú, tveir bræður og ein systir. Ekki var fleira fólk vinnandi á þeim bæ. En svo hagar til að farið er yfir fjörð einn eða vík sjóveg á engjarnar. Það var eitt kvöld er þau systkin komu af engjum að þau fluttu með sér heyfarm og hlóðu skipið svo hvergi var rúm fyrir stúlkuna að sitja nema aftur í stafnloki, en þeir bræður reru í því eina rúminu miðskipa sem autt var og sáu ekki til systur sinnar fyrir heybunkanum. Þeir héldu svo yfir fjörðinn og lentu þar sem þeim þótti hentast. En þegar þeir fóru að bera af skipinu var stúlkan horfin svo þeir vissu ekkert hvað af henni var orðið nema hvað þeir ímynduðu sér að hún hefði farið útbyrðis. Af því dimmt var orðið um kvöldið svo ekkert sást frá sér gjörðu þeir enga gangskör að því að leita hennar enda þóttust þeir vita að hún mundi ekki finnast lífs. Fóru þeir við það heim til sín og sváfu af um nóttina. Þessa nótt dreymdi annan bræðranna hana; þótti honum hún koma til sín í svefninum og vísa sér til hvar hann skyldi leita hennar. Morguninn eftir fóru þeir báðir bræður að leita á bát og slæddu hana upp á þeim stað sem hún hafði sjálf vísað til í drauminum. Eftir það var hún búin til moldar og grafin í kirkjugarði.

Svo vék við með stúlku þessa að hún lagði ástarhug á mann einn þar í nágrenninu, en hann vildi ekki sinna henni. Þegar búið var að grafa hana fór þenna mann að dreyma hana heldur illa og kvartaði hann undan því. Ekki löngu þar eftir hvarf þessi sami maður einu sinni svo enginn vissi hvað um hann hafði orðið. Var þá farið að leita hans með mannsöfnuði og fannst hann niður við sjó undir háum klettum, allur blár og marinn. Var það þá haft í tilgátum að stúlka þessi mundi hafa gengið aftur, steypt honum fram af klettunum og drepið hann með því móti. Þegar þetta fór að kvisast fóru bræður stúlkunnar til og grófu hana upp. Sáu þeir þá þau missmíði er þeir luku upp kistunni að stúlkan hafði snúið sér við í henni og lá á grúfu. Leizt þeim þá ekki á blikuna og um leið og þeir sneru henni við í kistunni ráku þeir oddhvassa stálnagla neðan í iljarnar á henni, lokuðu svo kistunni og gengu reglulega frá gröfinni aftur. Eftir það hefur ekki orðið vart við systur þeirra á sveimi.