Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Stelpan í Hólmakirkjugarði
Stelpan í Hólmakirkjugarði
Einu sinni var Hannes biskup Finnsson í kirkjuskoðunarferð á Austfjörðum. Hann kom að Hólmum í Reyðarfirði og gisti þar um nóttina, en þá sváfu oft biskupar í kirkjum á ferðum sínum. Um nóttina er búið um hann milli grátnanna og altarisins og háttar hann um kveldið, en þegar hann hefir legið nokkra stund vakandi sígur að honum svefnmók. Í því sýnist honum að kirkjan opnast og kvenmaður kemur inn í hana og stekkur með sama upp á fremsta bitann og svo bita af bita og stanzar á kórbitanum. Biskup stendur upp og segir hver fjandinn þetta sé og hvað hann ætli að fara. Í þessu snýr hún við og sama veg til baka ofan af bitanum og út úr kirkjunni. Biskup hraðar sér fram kirkjuna og út úr henni og sér hann þá að hún hverfur ofan í eitt leiðið norður undan kirkjunni út við garðinn. Hann tekur nokkra steina og leggur á staðinn til merkis, fer inn aftur, leggst til svefns og sefur rólega til morguns. Þá kemur prestur til hans og býður honum góðan dag, spyr hann hvernig honum hafi sofnazt. „Vel,“ segir biskup, „úr því ég sofnaði.“ Svo klæðir hann sig og biður prest að ganga með sér út í kirkjugarð; það gjörir prestur. Biskup spyr hann þá að hver muni vera jarðaður á þeim stað er hann lét steinana um nóttina. Það segist prestur ekki vita því það sé fá ár frá því hann þangað kom, en það geti skeð að gamall kall er lengi hafi verið á staðnum viti um það. Biskup lætur svo kalla á kallinn og spyr hann um þetta. Kall segist ekki vel muna það, hann sé farinn að verða gleyminn, en loksins rifjar hann það upp að í ungdæmi hans hafi uppvaxandi stelpa verið þar í sveitinni er enginn hafi viljað hafa fyrir óþekkt og partísku, og hafi hún því flakkað manna á milli, en að lokunum hafi hún orðið úti á Eskifjarðarheiði og minnir hann helzt hún væri jörðuð þar.