Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Tískildingurinn

Það er mál manna að hvur sem grefur silfur í jörðu geti ekki annað en gengið aftur til að skemmta sér við það. Einu sinni voru tveir menn á ferð að sunnan norður og töluðu um þetta sín á milli. Sagði annar að það mundi ekki vera satt. Hinn sagði það mundi þó vera eitthvað til í því. Þeir þrættu um þetta stundarkorn þangað til sá sem ekki trúði tók úr vasa sínum tískilding og gróf hann í þúfu á auðkenndum stað og sagði: „Trautt mun ég ganga aftur til tískildingsins þess arna.“ Hinn sagði hann skyldi varlega hæla því og svo slepptu þeir því tali og héldu áfram ferð sinni.

Segir ekki af þeim meir fyrr en eftir mörg ár þegar þeir báðir bjuggu búi sínu skammt hvor frá öðrum. Þá höfðu þeir báðir fyri löngu gleymt tískildingnum að öllu leyti. Þá tók sá sótt sem hafði grafið tískildinginn, og þegar að honum leið kom honum tískildingurinn í hug, og því meir sem honum þyngdi því hugfastari varð hann honum, og þegar hann fann að hann mundi deyja þá sendi hann til félaga síns gamla og bað hann bregða við sem skjótast og sækja tískildinginn sem hann hefði grafið í þúfuna. Það var eins og hinn vaknaði af svefni. Hann sagði sér kæmi þetta ekki óvart og bjó sig sem bráðast og hafði tvo hesta til reiðar og létti ekki fyrr en hann kom að þúfunni. Hann sá bláan reyk leika um þúfuna. Sumir segja honum hafi sýnzt mannshjarta sprikla á þúfunni. Hann tók upp úr þúfunni skildinginn og þá hvarf þetta. Þegar hann kom heim frétti hann lát mannsins. Hann hafði dáið um það bil sem hinn kom að þúfunni, eða litlu fyrr.