Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Til manns var ég ætluð

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Til manns var ég ætluð

Einu sinni var kvenmaður sem átt hafði barn og borið út. Síðar átti hún og annað barn og var það stúlka. Það barn var ekki út borið. Barn þetta fékk vöxt og viðgang og varð gjafvaxta kvenmaður; þar kom og að maður varð til að biðja hennar og hélt hann nokkru síðar brúðkaup sitt til hennar. Í þessu brúðkaupi var fjölmenni mikið og gleði. Þegar leið á veizluna heyrðu menn að komið var á gluggann á veizlustofunni og kveðin þessi vísa:

„Kasta átti ég kirnum,
reisa átti ég bú;
til manns var ég ætluð
eins og þú.“

Menn ætla að vísa þessi hafi verið kveðin til brúðarinnar og að systir hennar sem út var borin hafi kveðið hana.