Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Tvískerjadraugurinn
Tvískerjadraugurinn
Á síðara hluta 18. aldar bjó á Tvískerjum sá bóndi sem Þorsteinn [hét] og var Sigurðsson. Hann átti konu þá sem hét Guðrún Vigfúsdóttir og var mesta merkiskona. Með henni átti hann fjölda barna sem flest giftust og bjuggu í Öræfum og hafa margir bændur þar kyn sitt að rekja til þeirra. Þessi hjón önduðust bæði að Svínafelli í Öræfum og lifði hún fram um 1830. Það bar til eitt kvöld á Tvískerjum að fólk var farið að sofa í rökkrinu sem þá var víða siður á Íslandi. Gat bóndi þá ekki sofnað og hafði svo legið nokkra stund; heyrir hann þá að einhver kemur inn í fjósið og spyr því hver nú sé á ferð. Honum er svarað það sé Ófeigur. Kemur bónda þá í hug þetta sé Ófeigur bróðir sinn sem þá bjó á Fagurhólsmýri og hugsar hann muni nokkuð sérlegt erindi eiga þar hann sé á ferð því þess var hann sjaldan vanur, spyr hann því hvort hann sé einn á ferð. Hinn svarar: „Nei, hann Steingrímur og hún Ólöf fara fyrir utan.“ Þá bjuggu í Hnappavallahjáleigu hjón sem svo hétu og jók bónda það nú enn meiri furðu að þau skyldu vera á ferð austur yfir Breiðumerkursand svo snemma vetrar, Bóndi spyr hvað hann segi í fréttum. Gestur segir að ekkert sé að frétta nema dauðann. „Hver er nú dauður?“ segir bóndi. „Þú átt tvær ær dauðar í Kambsmýri,“ hún er skammt fyrir utan Tvísker austan undir svonefndum Kvíárjökli. Nú fór gesturinn að þoka sér hægt upp á pallinn og fer bónda nú ekki að verða um sel og gruna að þetta sé ekki náttúrlegt. Spyr hann því hvort hann geti ekki sagt sér hvar vera mundu lyklar sem hefðu týnzt í fyrra hjá sér. Kvað Ófeigur þá vera í mosahrúgu á bæjargarðinum – og þar fundust þeir síðar. Síðan spurði bóndi hvað margra nátta tunglið væri, en þá kom steinhljóð og gestinum brá svo við að hann ruddist ofan og út. Tvær vinnukonur sváfu út í skála sem hétu Herdís og Hólmfríður, og vaknar Herdís við það að henni fannst vera strokið fast ofan eftir höfðinu og ofan á herðarnar. Hugði hún þetta hefði verið bóndi og væri fólkið vaknað og vaka sett í fjósinu, vekur því stallsystur sína og fara þær inn í fjós og var þá allt í svefni utan bóndi sem ekki hafði sofnað. Um morguninn fundust tvær ær dauðar til samans sín hvorumegin götu á Kambsmýri. Um morguninn segir sagan að þrír menn hafi sézt hjá Staðará sem rann vestan undir túninu í Einholti, og Málfríður kona síra Vigfúsar með miklum ys [og] þys eitthvað að buldra við sjálfa sig. Spurðist og ekki til þeirra félaga síðan.