Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Vafurlogi hjá Guðlaugsstöðum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Vafurlogi hjá Guðlaugsstöðum

Það var um kvöld rétt eftir sólarlag. Sá hét Björn Bjarnarson sem logann sá. Hann er bróðir Odds sem nú (1847) er bóndi á Marðarnúpi. Þegar hann sá logann var hann smalamaður hjá Arnljóti bónda Illugasyni á Guðlaugsstöðum. Hann var eitt kvöld sem oftar yfir fé uppi á brúnunum fyrir ofan bæinn. Hann sá þá logann, miðaði hann niður og sagði bónda frá. Hann kvað það markleysu eina, en fór þó með Birni og fann hann staðinn. Skoðuðu þeir hann og sáu ei annað en að víðilaufið var lítið eitt sviðnað. Fóru þeir heim síðan. Nokkru síðar fór bóndi til og gróf þar gröf sem Björn hafði séð vafurlogann. Þegar Björn vissi það spurði hann bónda hvort hann hefði fundið nokkuð. Bóndi sagðist ekkert hafa fundið annað en kol nokkur. Halda menn að það hafi satt verið því aldrei urðu menn neins þess varir hjá honum sem fornmenjar þóttu í vera.