Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Vofan hjá Skipaá
Vofan hjá Skipaá
Valdi hét maður; hann bjó á Hellum hjá Gaulverjabæ. Herdís hét kona hans. (Þau voru börn þeirra: Helga nú niðurseta í Eystrihrepp, Þorkell bóndi í Krýsuvík, dáinn fyri nokkrum árum, Valdi nú bóndi á Skólabæ í Reykjavík.) Valdi var skyggn maður, en sagði ekki frá mörgu sem menn héldu hann mundi þó sjá. En þó sagði hann frá sumu, helzt óspurt.
Það var eitthvurt haust að þau hjón komu utan af Bakka. Herdís reið, en Valdi gekk fyrir hesti hennar. Þegar þau komu austur að Skipaá vildi hesturinn ekki ganga lengra. Valdi fór þá til og rak hestinn undir konu sinni og lamdi ötullega, en hesturinn gekk valla að heldur. Þetta var seint um kvöld og gekk þetta lengi nætur þangað til um síðir að þau komust austur yfir Baugsstaðaá og var þá mjög liðið á nótt. Þá fór hesturinn að ganga eðlilega. Valdi sagði síðan frá því að hann hefði séð gráa vofu í hunds- eða selsmynd veltast og vefjast fyrir fótum hestsins meðan hann vildi ekki ganga, en hann sagðist hafa hugsað sér að láta aldrei undan hrekjast. Það hvarf hjá Baugsstaðaá.