Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Álfhóll á Leirulæk

Í túninu á Leirulæk á Mýrum er hóll einn er Álfhóll er nefndur. Hefir svo sagt verið að ekki mætti slá Álfhól. Snemma á þessari öld bjó í mörg ár bóndi einn á Leirulæk er einatt sló samt hólinn; hann varð og oft fyrir miklum missi og tjóni á gripum sínum, einkum hestum, er hröpuðu suður af túnberginu og fórust ýmislega. Því næst kom annar bóndi er einnig sló Álfhól í tvö ár og varð hann einnig fyrir talsverðum fjármissi. Þriðja árið sló hann ekki Álfhól; hreppti hann þá engan skaða. Síðan komu aðrir búendur sem héldu sama sið, að slá ekki Álfhól, og lánast vel að.