Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur
Þriðji flokkur: Galdrasögur
Á Íslandi er og hefur verið sú trú eins og annarstaðar að einstakir menn gæti framkvæmt yfirnáttúrlega hluti, og verður það með tvennu móti: Einstakir menn eru annaðhvort fæddir með einhverjum þeim hæfilegleika sem ekki er öllum gefinn eða einhver ytri tilviljun veitir þeim hann svo að hann festist við þá og verður aldrei frá þeim skilinn. Þannig getur það sem sýnist með öllu ómögulegt orðið mögulegt með því að nota laglega hin ytri meðöl sem allur þorri manna þekkir ekki og sem náttúran og orðið skrifað eða talað í tíma og annað slíkt leggja þeim sem bera skynbragð á hlutina upp í hendurnar, og ef þessara bragða er neytt heitir það galdrar og fjölkynngi. Ekki er auðið að aðgreina til hlítar báðar þessar tegundir hinna yfirnáttúrlegu framkvæmda af því að á aðra hliðina geta hinir yfirnáttúrlegu eiginlegleikar sem aflaðir eru með göldrum verið manninum meðfæddir og allt eins á hina hliðina hinir sérstaklegu hæfilegleikar til að nema og fara með galdur, og enn er það að maður vefst einatt í vafa um ef maður vill gjöra sér grein fyrir einhverjum undarlegum atburði hvort hann sé heldur fram kominn af eigin kröftum þess sem framkvæmir eða hann sé til orðinn af töfrakunnáttu hans og galdramegni; af þessari ástæðu sé það því leyft að draga bæði þessi atriði saman í eitt en þótt það eigi ekki alls kostar vel við. Í þessu atriði verður þó að vera nokkur aðgreining sem er af öðrum toga spunnin. Það er sumsé alkunnugt að ekki hafa allir galdramenn verið jafn-fjölkunnugir. Þess vegna eru það einstakir menn sem hafa tekið öllum öðrum fram í fjölkynngi bæði sökum eigin hæfilegleika og tilsagnar er þeir hafa notið eða og að yfirnáttúrlegar verur hafa veitt þeim sérstakt fulltingi. Ræður það því að líkindum að um slíka menn gangi allmargar frásagnir en þótt þær jafnframt komi við langtum fleira en sjálfar galdrasögurnar með því þær setja manninn í samband við allar hugsanlegar verur á jörð, og yfir skýra slíkar sögur allt að einu einkar vel hið margbreytta samband sem er í milli ýmsra atriða þjóðsagnanna. Af þessu þykir það eiga vel við eftir að búið er að drepa á yfirnáttúrlega hæfilegleika og skýra frá hinum helztu töfrabrellum að bæta þar við frásögum um galdramennina sem verið hafa hér á landi, að því leyti sem þeir og gjörningar þeirra eru oss kunnir.