Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Ísfeldt trésmiður

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Ísfeldt trésmiður

Á Austurlandi var ekki alls fyrir löngu maður einn sem Ísfeldt hét og hafði sömu gáfu. Hann sá oft það sem við bar langt burtu og stundum það sem síðar kom fram. Einu sinni voru menn orðnir hræddir um Hafnarskip sem lengi hafði verið von á þar eystra. En Ísfeldt sagði að hann sæi að skipið væri þá að leggja heilt á hófi inn í höfn á Færeyjum. En seinna þegar skipið kom hér við land sannaðist það að hann hafði séð og sagt rétt til svo hvorki skakkaði dag né tíma. Endur og sinnum var honum gefið að sjá nokkuð fram í ókomna tímann fyrir sjálfan sig, en þegar hann þóttist sjá hvað bezt, voru þó ævilok hans aldrei fullglögg fyrir honum, heldur allajafna hulin þykkum reyk. Enda urðu það afdrif hans að hann kafnaði í baðstofureyk er hann var að smíða kirkjuna á Þingmúla 1832.