Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Óvættur á Grænafjalli

Eitthvört sinn gjörði Eiríkur orðsending austur til Fljótshlíðar að þeir skyldu safna Grænafjall (sem er afréttur Hlíðarmanna) viku fyrr en vant væri. En þeir skeyttu ekki boðum þessum og fóru ei á fjall fyrr en vant var. En er þeir voru að safna urðu þeir varir við þá nýlundu að einhvör óvættur var kominn að svonefndu „Keri“ á fjallinu (Ker þetta er gljúfur, mikið og djúpt); stökk óvættur þessi kringum Kerið með þvílíkum óhljóðum að allt fé stökk saman í hnappa, en hestar allir ærðust og stukku fram í byggð. Gekk þetta lengi þar til óvætturinn steyptist ofan í Kerið; varð þá kyrrt sem áður. Síðan ráku menn saman féð og er í almæli að þá hafi Grænafjall verið safnað sauðlaust, en aldrei fyrr eða síðar; einungis var einn vankahrútur sem eftir varð því hann einn kippti sér ekki upp við hljóðin.