Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þorgerður á Sólheimum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Þorgerður á Sólheimum

Það er annars hægt fyrir hvern mann sem vill að fá sér draummann; það sýnir fylgjandi saga.

Þegar Sigurður ríki Eyjólfsson var á Sólheimum (sonur Sigríðar Þorgilsdóttir) – þar hjá honum var kerlingaraumingi er Þorgerður hét, mjög sjúk af þvagteppu og vatnssótt. Einu sinni segir gamli Sigurður við hana: „Heyrðu! Þú mátt nú fara að verða draummaður minn þegar þú deyr.“ „Það held ég mig gildi einu, Sigurður minn,“ segir kerling. En er kom hin næsta nótt eftir dauða kerlingar kemur hún til hans í svefni og segir: „Nú er ég komin ef þú vilt ég verði draummaðurinn þinn; eða hvers viltu nú spyrja mig?“ Gamli Sigurður anzaði engu, enda kom hún aldrei framar.

Það er eins með draummann og sagnaranda að þeir ljúga öllu seinasta árið sem þeir lifa; aðrir segja þrjú seinustu árin.