Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þorlákur á Ósi kemur Gunnu fyrir
Þorlákur á Ósi kemur Gunnu fyrir
Einhverju sinni andaðist kona sem Guðrún hét í prestakalli séra Þórláks á Ósi. Jarðsöng prestur hana sem vanalega, en brátt varð þess vart að Gunna lá ekki kyr, heldur gekk hún mjög aftur svo fólk hafði hvergi að segja frið fyrir henni, hún reif og rústaði, og henti og barði bæði utan bæjar og innan svo þegar hún var ekki í bænum gekk Gunna út um úthýsi og glettist við þá er geymdu féð, og lá við sjálft fólkið stykki burt af bænum. En þegar presti barst þetta til eyrna gerði hann sig þangað sem Gunna átti heima og lét búa sér rúm frammi í bæjardyralofti og lagði sig þar í þegar húma fór. En þegar leið fram á nóttina fór presti að heyrast gengið um, og ekki lipurt; var þá barið og ólmazt svo presti þókti sem loftið ætlaði niður að hrynja. Stóð þá prestur upp og gekk ofan í stigann og mælti þá fram vísur þessar:
- „Hræddu mig ekki Gunna góð með geði ófínu,
- liggðu kjur í leiðinu þínu
- og loftinu komdu ei nærri mínu.
- Að hræða mig ekki, heilla Gunna, er hegðan betri,
- láttu mig njóta í svörtu setri
- ég söng yfir þér í hríðartetri.“
Hættu þá ólætin og sást Gunna aldrei síðan.