Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þorsteinn Bjarnarson á Útskálum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Þorsteinn Bjarnarson á Útskálum

Þorsteinn son Bjarnar málara Grímssonar í Hruna var prestur á Útskálum forniskjusamur og undarligur í mörgu. Hann fór frá Útskálum um morguninn og reiddi dóttur sína að baki sér og embættaði á Bessastöðum og seinni messu aftur um sama daginn heima hjá sér að Útskálum. – Þetta reið hann á gandreið.

Eitt sinn voru þau úti stödd síra Þorsteinn og dóttir hans; voru þau að tala sín á milli hvað margir væru fiskar í því og því skipinu er inn reru ósinn. Bar þeim að öllu saman þar til að eitt skip kom. Þá sagði síra Þorsteinn að á því væru nítján fiskar, en hún neitaði, heldur væru þeir tuttugu. Þau þrættust um þetta; gengu síðan niður í vörina. Töldu þau fiskana og voru þeir nítján. Þá gekk hún að einni stórri löngu, risti hana á kviðinn og tók þar út glænýja ýsu. „Of mikið hefi ég kennt þér,“ segir hann þá og sló henni utan undir.

Þegar síra Þorsteinn var orðinn gamall og blindur og lagztur í kör átti að setja þangað prest, en hann var því mjög mótfallinn. Það fór þó fram, en er hann var út borinn hrækti hann í annan bæjarkampinn og hefir hann aldrei síðan uppi tollað. Hann beiddi að bera sig þrisvar í kringum staðinn. Þá hafði verið kot – að sumir segja, en aðrir hesthús – á hólnum fyri norðan bæinn; var hann borinn í kringum það, hrundi það þá til grunna – aðrir segja það hafi sokkið; tolldi það aldrei uppi. Þar var seinna settur hjallur og hvernig sem honum var snúið og í hverja átt sem hann horfði stóð hann aldrei.

Sagt er svo í ættartölu hjá mér að engvir séu niðjar hans. Systir Bjarnar málara – annars voru þau víst fjögur systkin – var Halla í Ytriskógum móðir Ámunda lögréttumanns, föður Högna prests í Eyvindarhólum, föður Benedikts í Skógum, föður Högna þar, föður Einars stúdents í Skógum, föður húsfrú Sigríðar í Skógum – konu síra Kjartans[1] – og fleiri hennar systkina.

  1. Þ. e. Jónssonar (1804-1895).