Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þuríðarvatn
Þuríðarvatn
Á fjallinu fyrir ofan Burstarfell í Vopnafirði er vatn eitt mikið er heitir Þuríðarvatn. Úr vatninu rennur á er kennd er við vatnið. Það er gömul frásögn að í fyrndinni hafi búið tvær kellingar og hétu báðar Þuríðar, önnur við vatnið, en hin niðrí dalnum á bæ þeim er síðan heitir á Þuríðarstöðum og er nú eyðikot. Báðar lifðu kellingar þessar á silungsveiði, sú sem við vatnið var á silung úr vatninu, hin á silung úr ánni og átti sá silungur að koma úr vatninu. Svona lifðu nú kellingar þessar lengi, en þar kom um síðir að öfund og fjandskapur kom upp á milli kellinga þessara og hugsar sú sem við vatnið bjó að hefna greypilega á nöfnu sinni sem niðrí dalnum bjó við ána, tekur því það ráð að hún stíflar ána þar sem hún fer úr vatninu so ekki kemst neinn silungur í ána. Kellingin sem á Þuríðarstöðum bjó veslast því upp og deyr. En áður hún gefur upp öndina leggur hún á vatnið (því hún var göldrótt) að allur þess silungur skuli verða að ormum og pöddum, öfuguggum og hornsílum. Og þetta varð, hvörs vegna að hin kellingin fór sömu leiðina skömmu þar á eftir, en vatnið er ætíð fullt af þessum kvikindum síðan.