Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Af Illuga smið
Af Illuga smið
Tveir smiðir vóru samtíða í Biskupstungum sem báru langt af öðrum í þeirri íþrótt. Annar var Eiríkur Melkjörsson bóndi á Bergsstöðum. Hann smíðaði mynd eftir sólkerfinu, en deyði áður en hann hafði fullgjört gangverk það sem átti að koma öllu á rás. Hinn var Illhugi bóndi á Drumboddsstöðum. Hann var manna hagastur á járn, en þó einkum tré. Hann brúkaði aldrei hefil, en felldi allt saman með smíðaöxinni. Einu sinni var hann nótt á bæ og þar var þá líka lærður sniðkari. Þeir voru beðnir að smíða mjólkurtrog um kvöldið um vökuna. Illhugi hafði engin tól nema öxi sína og nafar. Sniðkarinn hafði öll þau tól sem siður er að brúka. Þeir kepptust og varð sniðkarinn litlu fyrri. Síðan var vatni hellt í trogin og lak trog sniðkarans, en Illhuga trog hélt.
Illhugi var fenginn til að smíða allt vandað smíði sem smíða þurfti í Skálholti. Er sagt hann hafði smíðað viðaraxir úr öxinni Rimmugýgi er Skarphéðinn átti. Hafði hún seinast verið brúkuð fyrir réttunaröxi í Skálholti. Sumir segja Illhugi hafi gjört úr henni tólf axir, aðrir segja þær hafi verið færri og er það líklegt. Enn segja nokkrir að öxin hafi verið látin sigla héðan af landi seinast allra vopna. Illhugi var einhvur mesti skipasmiður á sinni tíð, en mjög var hann efnisvandur og þótti sjá nokkuð fram í veginn. Einu sinni kom hann þar að sem menn vóru að smíða skip. Þá sagði hann: „Ekki eruð þið efnisvandir að hafa vindeik í skipið.“ Þeir gáfu því engan gaum. Það skip fauk og brotnaði í spón. Einu sinni sem oftar var hann fenginn til að smíða skip og þegar honum var fengið kjalarefnið, sagði hann: „Þetta er blóðeik; ég vil ekki smíða skip úr því tré.“ Þessu var ekki sinnt og varð hann að brúka tréð. Þá sagði hann: „Þetta skip verður manndrápsbolli, en við því skal ég gefa að aldrei skal það af kjölnum fara.“ Það skip klofnaði á sjó. Illhugi sagðist ekki vita þann kirkjugarð á Íslandi sem hann vildi síður liggja í en á Stað í Grindavík, en það sagði hann mundi þó liggja fyrir sér. Og einu sinni var hann fenginn að smíða skip í Grindavík og sagðist hann gjöra það nauðugur. Sagði hann þar til væri þrjár orsakir: hin fyrsta að skipið yrði manndrápsbolli. önnur að það yrði seinasta skipið sem hann smíðaði; hina þriðju sagði hann ekki. Þegar skipið var algjört tók hann sótt og dó og var grafinn á Stað. Spá hans sannaðist um skipið.
Son Illhuga var Jörundur faðir Þorsteins bónda á Brúnavallakoti, sem Gottsveinn Gottsveinsson skar á höndina, föður Einars á Mýrarhúsum (eða Pálshúsum) á Seltjarnarnesi og bræðra hans. Þeir eru nú vaxnir menn og smiðir miklir og svo voru þeir langfeðgar allir.