Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Börkur og Þunngerður

Eftir þetta urðu fáir til að leita á Kára og bjó hann síðan lengi í Selárdal. Hann réði þá til sín hjón er eigi þóttu vera í eðli sem aðrir menn. Þrællinn hét Börkur, en ambáttin Þunngerður; þóttu þau ei mennsk að alæli og gekk Börkur berserksgang; sögðu menn svo af því Börkur var öðrum mönnum máttkari og orkumeiri. Steinn er reistur á hraununum út frá Selárdal; var hann tak Barkar og heitir enn Barkartak.

Það var eitt sumar að Börkur tók til sláttar á Selárdalstúni og Þunngerður átti að raka eftir honum. Ekki voru fleiri menn að slætti en Börkur. Í Selárdal er tún mikið, slétt og hart. Börkur vildi ekki matast fyrri en tún var allt slegið; og er hann var að slá ena yztu útskækla norður af túninu mælti Þunngerður: „Mál er að matast bóndi.“ Hann svaraði: „Túnið skal ráða kerling.“ Hneig hún síðan dauð niður þar sem hún stóð í mýrardæld norður frá túnvelli og er hún þar heygð, en Börkur féll dauður niður þar skammt frá á túnfætinum; var þar orpinn haugur eftir hann og lagður hjá honum sláttuljár hans; heitir þar enn í dag Barkarleiði og sjást þess glögg merki. Vildi Kári ei unna þessum hjúum sínum legs í kirkjugarði.