Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Bandrúnir

Þá er næst að minnast bandrúnanna sem voru svo fjölbrotnar að heilu orði eða jafnvel heilum formála var komið fyrir í eina stafsmynd. Í þessu atriði tel ég fyrstar bandrúnir þær sem eru aftan við sum handrit af Buslubæn. Grunnavíkur-Jón segist hafa séð ár á einu galdrakveri og að eitt þessara nafna felist í hverri: Fjölnir, Flugur, Þundur – og þó enn fleiri nöfn Óðins; þetta er víst rétt hermt því ég hef og séð á öðrum galdrablöðum á eftir Syrpuversi sex bandrúnir sem hver um sig átti að tákna eitt af þessum nöfnum: „Freii,[1] Fjölnir, Feingr, Þundr, Þeckr, Þrumr.“

Annað er formáli til þess að láta þjóf skila aftur stolnu fé.[2] Í honum voru átta bandrúnir sem merktu þessi nöfn Ásanna: „Baldur, Týr, Þór, Óðin, Loka, Hæni, Frigg (og Freyju?)“.

Þriðja er stafur sá sem veðurgapi er nefndur; úr honum mátti lesa „Þórshöfuð“. Veðurgapi var hafður til að gjöra ofviðri að mönnum sem voru á sjó og drekkja þeim. Þessi aðferð er sagt að hafi verið þar við höfð að galdramaður tók upprifið lönguhöfuð og festi það niður, annaðhvort á sjávarbakka ef hann var hár, t. d. bergsnös, eða á öðrum stað sem hátt bar á og lét það sem út snýr á lönguhausnum óupprifnum snúa í þá átt sem hann ætlaðist til að veðrið kæmi úr. Síðan tók hann kefli og risti á það bandrún þessa, veðurgapann, þandi svo með keflinu út kjaftinn á lönguhausnum og festi það þar. Æstist þá veður í lofti úr þeirri átt sem galdramaður vildi og umhverfði sjónum svo engum skipum var fært á sjó að vera nema þeim einum sem jafnvel voru mennt eða betur en sá sem veðrinu olli.

Fleiri aðferðir hef ég heyrt að hafðar hafi verið til hins sama þó ekki sé ristinga getið þar við. Þegar póstskipið fórst hérna um árið (1817) segir sagan að því hafi valdið karl einn vestra. Honum var í nöp við einhvern sem á skipinu var. En þegar skipið lagði út Faxaflóa fór karl þessi í einhýsi frá öðru fólki fram í bæ, en drengir sem voru á bænum fóru á eftir honum og gægðust inn um rifu á kofahurðinni og sáu að karl sat þar við fulla vatnskollu og hafði báruskel á. Lengi var hann að blása á vatnið þangað til gárar fóru að koma á það og gefa á skelina svo hún var orðin nærri full er drengirnir sáu seinast til. Leizt þeim þá ekki að bíða lengur. Morguninn eftir þegar að var komið var skelin á hvolfi á kollubotninum, karlinn dauður í kofanum og póstskipið brotið í spón undir Svörtuloftum við Snæfellsnes.

Þriðja aðferðin er gjörningaveður með galdraveifu; ekki er þess heldur getið að þar séu ristingar né formálar við hafðir. Sagan segir að kerling ein suður í Garði ætti tengdason sem henni var ofboð illa við. Einu sinni þegar hann var á sjó gjörði hún að honum ofsaveður með veifunni svo hann fórst. Var það veður síðan kallaður kerlingarbylur.

Eftir þenna útúrdúr kemur þá loksins fjórða myndin; það er angurgapi. Sá stafur var hafður til að drepa gripi fyrir öðrum og voru í honum margar , , og , að sögn Grunnavíkur-Jóns. Því miður hef ég aldrei séð angurgapa uppdreginn[3] en heyrt hef ég um hann þessa sögu:

Maður var í Skagafirði sem kallaður var Galdra-Björn. Hann átti illt útistandandi við marga í héraðinu og þóttist ávallt eiga sín í að hefna á þeim með ýmsum gjörningum. Eitt af því var það að hann risti angurgapa á kjaraldshlemm og sendi svo hlemminn á stað til að drepa fénað fyrir fjandmönnum sínum. Hlemmurinn rann á rönd víða um héraðið og drap fé bænda hrönnum saman því hver skepna sem hlemminn sá lá þegar dauð. Hlemmurinn snerist svo snart að ekki varð auga á fest né á hann lesið, en það þóttust kunnáttumenn skilja að ef einhverjum tækist að lesa ristingarnar á honum sem sáust svo óglöggt af því hann snerist svo ótt að þær hlupu í eina hringiðu fyrir auganu, að þá mundi þessu meini af létta. Loksins tókst galdramanni einum út í Fljótum að lesa á hlemminn; féll hann þá um koll og hreyfðist ekki eftir það né vann neinum tjón framar.

  1. Á líklega að vera „Frey“ eða Freyr (sbr. mynd í Galdrastöfum og galdrabókum).
  2. Auk þessa er bæði Þórshamar hafður til hins sama og stefnurnar sem síðar koma.
  3. Jón Ásgeirsson hefur dregið upp angurgapa hér og er hann frábrugðinn.